Þekktist ekki boð Frakka

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gríðarmikil samstöðuganga stendur nú yfir í París, þar sem milljón manna hefur safnast saman til að minnast fórnarlamba voðaverkanna sem framin voru í vikunni. Athygli hefur hins vegar vakið að forsætisráðherrar allra landa á Norðurlöndum utan Íslands hafa mætt til Parísar til að taka þátt í athöfninni.

Samkvæmt upplýsingum frá aðstoðarmanni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra þekktist ráðherrann ekki boð Frakka um þátttöku í samstöðugöngunni.

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Jóhannes Þór Skúlason að síðla föstudags hafi forsætisráðuneytinu borist boð frá frönskum yfirvöldum um þátttöku í samstöðugöngunni, en að ráðherranum hafi ekki verið unnt að þekkjast boðið.

Jóhannes sagðist ekki geta gefið nánari skýringu á því hvers vegna forsætisráðherra sá sér ekki fært að vera viðstaddur.

Staðgengill sendiherra er fulltrúi Íslands

Jóhannes tekur fram að Sigmundur hafi áður átt fund með sendiherra Frakklands þar sem ráðherrann kom á framfæri samstöðu og samúð með fórnarlömbum hinnar hrottalegu hryðjuverkaárásar og með frönsku þjóðinni.

Þá bendir Jóhannes á að Ísland skorti þó ekki fulltrúa í París, en það mun vera Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi, sem er opinber fulltrúi Íslands við athöfnina sem nú fer fram.

Uppfært kl. 19.46: Fréttinni hefur verið breytt til að endurspegla að ekki var um að ræða persónulegt boð forseta Frakklands til forsætisráðherra, heldur var um almennt boð að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka