Búist er við að rúmlega ein milljón manna muni safnast saman á götum Parísar nú þegar samstöðufundur vegna voðaverka vikunnar er að hefjast. Mikill viðbúnaður er vegna fundarins og munu tvö þúsund lögreglumenn og á annað þúsund hermanna sjá um öryggisgæslu.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa boðað komu sína á fundinn en þeirra á meðal eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Alls verða 34 leiðtogar Evrópuríkja viðstaddir fundinn en athygli vekur að forsætisráðherrar allra landa á Norðurlöndunum utan Íslands hafa boðað komu sína. Þá verður utanríkisráðherra Rússlands, Sergei Lavrov, viðstaddur þrátt fyrir viðskiptaþvinganir ESB gegn Rússlandi og deilur þeirra í millum.