Tímaskortur hamlaði för ráðherra

Leiðtogar um 60 ríkja fóru fyrir göngunni í dag, ásamt …
Leiðtogar um 60 ríkja fóru fyrir göngunni í dag, ásamt eftirlifendum og skyldmennum þeirra sem voru myrtir. AFP

Ýmsir samverkandi þættir urðu þess valdandi að forsætisráðherra gat ekki tekið þátt í samstöðugöngunni í París í dag, m.a. skammur fyrirvari, ferðatími og dagskrár ráðherra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Forsætisráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu og skrifstofu forseta Íslands barst orðsending frá sendiráði Frakklands á Íslandi síðdegis á föstudegi, þar sem sagði að erlendum gestum stæði til boða að taka þátt í samstöðugöngunni.

Í bréfinu voru einnig þakkaðar orðsendingar og auðsýnd samúð og samstaða íslenskra stjórnvalda vegna málsins.

„Rétt er að taka fram að ekki var um að ræða boð Frakklandsforseta til forsætisráðherra Íslands eins og haldið var fram í nokkrum fréttum í dag,“ segir í tilkynningunni.

Fulltrúi Íslands í göngunni var Nína Björk Jónsdóttir, staðgengill sendiherra Íslands í Frakklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert