Ánægð að geta selt föt í miðbænum

Kolaportið Ásgerður Jóna Flosadóttir, fyrir miðju, ásamt samstarfskonum.
Kolaportið Ásgerður Jóna Flosadóttir, fyrir miðju, ásamt samstarfskonum. Ljósmynd/Presshotos.biz-Rósa Braga

Næstu tvo til þrjá mánuði verður Fjölskylduhjálp Íslands með bás í Kolaportinu. Þar verður til sölur nýlegur og notaður fatnaður og rennur allur ágóði óskiptur í matarsjóð samtakanna en sjálfboðaliðar standa vaktina við básinn. 

„Við getum ekki annað sagt en þetta [fyrsta helgin] hafi gengið vel, með tilliti til tímasetningarinnar,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður samtakanna, í samtali við mbl.is. 

Þetta er í þriðja skiptið sem samtökin leigja bás í Kolaportinu og selja fatnað, skó, bækur og annað. Meðal annars er hægt að kaupa fatnað á börn og fullorðna á 100 krónur, yfirhafnir á 500 krónur og bækur á 100 krónur. „Það er ferð til fjár að kíkja til okkar,“ segir Ásgerður.

Hún segir að samtökin séu ánægð að geta boðið upp á söluna í miðbænum. „Við förum í 101 til að ná til fólksins þar,“ segir hún.

Í tilkynningu frá Fjölskylduhjálp Íslands kemur fram að samtökin hafa í 11 ár rekið nytjamarkaði á starfsstöðvum sínum til fjáröflunar til mataraðstoðar við fátækar fjölskyldur. 

Nytjamarkaðirnir eru staðsettir í Iðufelli 14 í Reykjavík, Hamraborg 9 í Kópavogi og Baldursgötu 14 í Reykjanesbæ og nú í Kolaportinu um helgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert