Ásta Gunnlaugsdóttir þarf að fara til Bandaríkjanna á miðvikudaginn til þess að afhenda tvö ung börn sín til föður þeirra eftir úrskurð Hæstaréttar. Ásta og eiginmaður hennar hafa verið skilin að borði og sæng síðan í apríl á síðasta ári. Hún segir að maðurinn hafi beitt hana andlegu ofbeldi, látið hana vinna fyrir fjölskyldunni ásamt þess að sjá ein um heimilið og börnin tvö.
Eiginmaður Ástu er Bandaríkjamaður og kynntust þau árið 2006. Þá var Ásta aðeins rúmlega tvítug og vissi ekki að maðurinn hafði hlotið dóm fyrir vörslu barnakláms hér á landi skömmu áður en þau kynntust. Þá hafði maðurinn búið á Íslandi í tíu ár.
Þegar að Ásta ákvað að fara ekki aftur til Bandaríkjanna á síðasta ári sendi eiginmaður hennar beiðni til íslenskra stjórnvalda um afhendingu barnanna á grundvelli Haag-samningsins.
Ásta vann málið í Héraðsdómi Reykjaness. „Sá dómur úrskurðaði að það yrði óbærilegt fyrir börnin mín að vera án mín og var vitnað í mat frá sálfræðingi. Jafnframt var úrskurðað að þar sem ég væri ekki með atvinnuleyfi í Bandaríkjunum gæti ég ekki unnið fyrir þeim,“ segir Ásta.
Þeim dómi var síðan snúið við í Hæstarétti. „Þar segja þeir að þetta mat frá sálfræðingnum skipti ekki neinu máli sem mér fannst mjög furðulegt,“ segir Ásta.
Ásta og maðurinn gengu í hjónaband árið 2007. Hún er nú nýbúin að opna skilnaðarmál úti í Bandaríkjunum.
Bandarískur dómari gaf Ástu leyfi til þess að vera á Íslandi til 15. janúar og fer Ásta því út, ásamt börnunum á miðvikudaginn. „Dómarinn gefur föður þeirra þó nokkurn forræðistíma með krökkunum vegna þess að ég fór með þau til Íslands á ólögmætan hátt. Þannig er mér refsað og það bitnar bara á börnunum,“ segir hún. Börnin eru tveggja og fjögurra ára gömul. Ásta segir að þau eigi erfitt með að skilja hvað sé í gangi.
„Sonur minn sem er tveggja ára er einhverfur og dóttir mín, nýorðin fjögurra ára er eftir á í þroska. Það er ekki hægt að útskýra þetta fyrir henni,“ segir Ásta sem tengir þroska barnanna við aðstæðurnar sem börnin bjuggu við í Bandaríkjunum.
„Börnin fóru aldrei í neina dagvistun eða leikskóla. Við rákum okkar eigin fyrirtæki og maðurinn minn vildi að ég ynni með honum og tæki börnin með mér í vinnuna. Það var mjög mikið sett á mig, ég rak stóran hluta fyrirtækisins og vann mikið. Í kjölfarið þurfti ég að hugsa um mjög margt og sjá um heimilið og börnin líka. Ég vann mjög mikið en við áttum aldrei pening. Við hittum mjög sjaldan annað fólk og held ég að það hafi bitnað á félagsþroska barnanna,“ segir Ásta.
Hún segir að maðurinn tali við börn sín tvisvar í viku í gegnum forritið Skype og að þau þekki hann í sjón. Ásta veit þó ekki hvort börnin vilja vera hjá honum. „Hann er rosalega duglegur að geifla sig framan í börnin en hann hefur aldrei hugsað neitt um þau. Hann hefur aldrei skipt á bleiu, sett þau í bað, sett þau í rúmið eða gefið þeim að borða,“ segir Ásta.
Eins og áður hefur komið fram var maðurinn dæmdur hér á landi fyrir vörslu á barnaklámi. Þegar að Ásta kynntist manninum árið 2006 vissi hún ekki af því og var það ekki fyrr en að vinkona hennar sagðist hafa séð umfjöllun um það í DV. „Ég spyr hann úti þetta og hann segir að þetta sé bara bull hjá blaðinu. Segir hann að málinu hafi verið vísað frá rétti eftir að dómari hafi heyrt hvað maðurinn hafði að segja. Að hans sögn var málið aldrei tekið fyrir.“
Ásta komst þó að öðru þegar hún kom heim til Íslands á síðasta ári. „Þegar ég fer að skoða málið kemst ég að því að hann var á skilorði vegna vörslu á barnaklámi þegar ég kynnist honum.“
„Þessi maður er siðblindur. Hann er búinn að ganga undir þremur nöfnum í gegnum tíðina og hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Þegar ég hitti hann var ég bara rétt rúmlega tvítug og hann fertugur. Hann lét mig bara dansa í kringum sig án þess að ég vissi eitthvað betur,“ segir Ásta.
Árið 2007 flutti Ásta ásamt honum til Washington-ríkis í Bandaríkjunum. Árið 2010 stofnuðu þau fyrirtæki sem framleiddi ís. „Þá var ég komin í sjálfheldu. Ég fékk ekki að eignast vini, fékk ekki að vinna í vinnum sem hann samþykkti ekki, ég átti bara að sjá um fyrirtækið, hann og heimilið. Hann vann mjög lítið á meðan. Ég var í algjörri einangrun,“ segir Ásta.
Hún segir að ekkert þessara atriða hafi verið tekið til greina við úrskurð Hæstaréttar.
„Ég er auðvitað mjög stressuð yfir því hvað mun gerast. Þetta er búið að vera rosalegt mál og ég vissi ekki í langan tíma hvað myndi gerast. Sem betur fer þekki ég þarna úti fólk sem hjálpar okkur en ég má auðvitað ekki vinna fyrir okkur,“ segir Ásta sem veit ekki hvað hún þarf að vera lengi í Bandaríkjunum. „Þetta gæti tekið fjóra mánuði, þetta gæti tekið ár. Ég bara veit það ekki. Svo veit ég heldur ekki hvað ég fæ langt landvistarleyfi í Bandaríkjunum fyrr en ég lendi þar. Þá gefa þeir mér upp tíma. Það gæti verið að tíminn sem ég fái verði ekki nógur og ég þurfi þá að skilja börnin mín eftir.“
Aðspurð hvort hún sjái fyrir sér að börnin gætu verið hamingjusöm í umsjá föður síns svarar Ásta neitandi.
„Það er ekki hugsanlegur möguleikur að hann geti séð um þessi börn. Það mesta sem hann hefur gert fyrir þau er að sýna þeim nokkra tölvuleiki og fara með þau í bíltúr,“ segir Ásta.
Hún segir að veran hér á landi síðustu mánuði sé búinn að vera frábær. Börnin komust fljótt inn á leikskóla og fengu þjónustu hjá Þroska- og hegðunarstöð. Átti sonur hennar að hefja meðferð á greiningarstöð í núna í janúar en nú er það ekki hægt.
„Dóttir mín var jafnframt með manneskju með sér allan daginn til að hjálpa við samskipti. Það vildi þannig til að sú manneskja var talmeinafræðingur og hefur dóttir mín lært rosalega mikið á stuttum tíma. Þegar hún kom hingað í vor kunni hún aðeins 30-40 orð, þriggja og hálfs árs,“ segir Ásta. „Ég mun reyna mitt besta til þess að halda þessu við úti í Bandaríkjunum en ég veit ekki hvernig það mun ganga.“
Aðspurð hvort mögulegt sé að faðir barnanna sendi þau á leikskóla í Bandaríkjunum segir Ásta erfitt að meta það. „Þegar ég kom til Íslands og sagðist ekki vilja búa lengur með honum lofaði hann bót og betrun. Sagði að það væri ekkert mál að senda þau á leikskóla. En ég treysti honum auðvitað ekki.“
Ásta mun þurfa að ráða til sín lögfræðing þegar hún kemur til Bandaríkjanna. Það er gífurlega kostnaðarsamt og þarf oft að greiða bandarískum lögfræðingum fyrirfram. Síðustu mánuði hefur verið í gangi ákveðin söfnun til styrktar Ástu og börnunum.
Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að leggja inn á reikning 323-13-701250, kt. 080586-2489. Jafnframt er hægt að fylgjast með söfnuninni á Facebook.