„Með þessum ummælum vildi ég bara vekja athygli á hættu sem gæti steðjað að þjóðinni,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, aðspurður um ummæli sín um múslíma á Íslandi.
Síðastliðinn laugardag spurði þingmaðurinn á facebooksíðu sinni hvort bakgrunnur múslíma sem byggju á Íslandi hefði verið kannaður og hvort einhverjir íslenskir múslímar hefðu farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna. Spyr hann jafnframt hvort við séum örugg á Íslandi.
Ummæli þingmannsins hafa verið fordæmd af til að mynda flokkssystrum hans, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Unni Brá Konráðsdóttur. Jafnframt hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, gagnrýnt ummælin og sakað þingmanninn um fávisku.
Ásmundur segir að Íslendingar búi við þann raunveruleika að svipaðir hlutir og gerðust í París í síðustu viku gætu gerst hér á landi. „Það er kannski of mikið að segja að við getum ekki farið örugg að sofa í kvöld út af þessu en við búum við þann raunveruleika að þetta gæti gerst hér á Íslandi.“
Segir hann að á fundi evrópskra þingmanna sem standi yfir í Tyrklandi þessa dagana hafi Tyrkir sjálfir lýst yfir áhyggjum sínum. „Tyrkirnir sjálfir segja á fundinum að þeir hafi mestar áhyggjur af öfgahópum múslíma. Við því svöruðu þingmenn frá Norðurlöndunum að þau gætu verið næst. Tyrkir líta á öfgahópa múslíma sem raunverulega hættu og Norðurlöndin sjá að þetta gæti gerst hjá þeim líka.“ Segir hann að hættan sé alveg jafn raunveruleg fyrir Íslendinga.
Ásmundur gagnrýnir umræðuna sem hafi skapast um ummæli sín í dag. „Þarna eru tólf blaðamenn drepnir fyrir að sinna störfum sínum og allur heimurinn fordæmir það. En þá má ég ekki hafa þá skoðun að við ættum að skoða okkar öryggismál. Er tjáningarfrelsi ekki algilt?“ spyr Ásmundur.
Aðspurður segir Ásmundur að hann sé ekki að sýna fordóma með ummælum sínum. „Það getur vel verið að eitthvað í þessum stutta pistli hefði mátt vera orðað öðruvísi. En það breytir því ekki að við þurfum að geta talað um hlutina án þess að drepa sendiboðann.“
Eins og áður hefur komið fram hvatti SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, í yfirlýsingu Ásmund til að biðja íslenska múslíma afsökunar á ummælum sínum. Hann segist eiga eftir að meta hvort hann geri það.
„Ég hef ekkert heyrt frá SUS og hvorki séð eða heyrt þeirra ummæli. Þau hafa ekki haft fyrir því að senda mér þau eða hafa samband við mig.
Það hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum og annars staðar að Ásmundur skuli setja orðin „íslenskir múslímar“ innan gæsalappa. Þingmaðurinn segir að engin merking hafi verið á bak við það. „Það var bara klaufaskapur að setja það fram þannig. Það var engin ákveðin meining á bak við það.“