Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að í opnu og lýðræðislegu samfélagi, sem standi vörð um mannréttindi, séu einstaklingar ekki rannsakaðir sérstaklega af hálfu ríkissins á grundvelli trúarskoðana.
Þetta kemur fram í færslu sem Unnur Brá skrifar á Facebooksíðu sína í tengslum við ummæli sem samflokksmaður hennar, Ásmundur Friðriksson, lét falla í dag í tengslum við voðaverkin í París. Hann sagði að það þyrfti að rannsaka bakgrunn allra múslima á Íslandi og kanna hvort þeir hefðu farið í þjálfunarbúðir hryðjuverkamanna.
„Opið og lýðræðislegt samfélag sem stendur vörð um mannréttindi allra óháð skoðunum, efnahag, kyni og þjóðfélagsstöðu er samfélag sem ég tel farsælast að byggja upp. Í slíku samfélagi eru einstaklingar ekki rannsakaðir sérstaklega af hálfu ríkisins á grundvelli trúarskoðana,“ skrifar Unnur Brá.