Tuttugu skátar og félagar úr ungmennasveitum Landsbjargar á aldrinum 14 til 15 ára sváfu eina nótt í tjöldum í nágrenni Lækjarbotna um helgina.
Um tíu stiga frost var á svæðinu og reyndi veðrið á þolrifin hjá unga fólkinu. Engum varð meint af og fengu ungmennin góðan undirbúning fyrir lengri ferð sem farin verður í febrúar.
Að sögn Silju Þorsteinsdóttur, leiðtoga Vetraráskorunar Crean á Íslandi, gekk ferðin vel og eru þeir sem standa að áskoruninni stoltir af ungmennunum.
Hópurinn fékk fræðslu í réttri hegðun á fjöllum og góðum útbúnaði. Var þeim meðal annars kennt að haga ferðum eftir veðri og reynslu þátttakenda.
Ungmennin elduðu sjálf á prímus. Sum gerðu pastarétt frá grunni en önnur höfðu tilbúna rétti meðferðis. Þau gæddu sér síðan öll á hafragraut í morgunmat.
Vetraráskorunin er tileinkuð Tom Crean, írskum landkönnuði, og tekur dagskráin mið af því. Gerð eru snjóhús eða skýli, sofið í tjöldum og fjallabjörgun æfð.
Í febrúar koma hátt í tuttugu skátar frá Írlandi hingað til lands og taka þátt í Vetraráskoruninni ásamt íslenska hópnum. Mun hópurinn bæði gista í skála á Úlfljótsvatni og í tjöldum á Hellisheiði.