Þáverandi ritstjóri Fréttablaðsins stöðvaði frétt sem blaðamaðurinn María Lilja Þrastardóttir vann að í desember 2013. Hún hafði þá safnað pósti í desember og hugðist skrifa frétt um það magn sem félli til á venjulegu heimili í jólamánuðinum. Fréttin var talin óheppileg í ljósi útgáfu Fréttablaðsins.
María Lilja greinir frá þessu á samfélagsvefnum Facebook og tengir við frétt DV um sama efni, en María Lilja starfaði á DV fyrir síðustu væringar á ritstjórninni. „Í ár safnaði ég aftur pósti og nú fyrir DV. Það varð að endingu Sigurður Mikael sem kláraði málið og ritaði þessa fínu frétt,“ skrifar María Lilja.
Ritstjórar Fréttablaðsins á þeim tíma sem frétt Maríu Lilju var stöðvuð voru þeir Mikael Torfason og Ólafur Stephensen. Þeir hafa báðir látið af störfum síðan.
Uppfært kl. 16:49
María Lilja segir í samtali við Kjarnann að það hafi verið Mikael Torfason sem hafi þótt „óheppilegt“ fyrir 365 miðla að fréttin færi í loftið í ljósi þess að fyrirtækið gefur út Fréttablaðið.
Færslu Maríu Lilju má lesa hér að neðan.