„Leið eins og mig langaði að gefast upp“

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad
Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Ljósmynd/Úr einkasafni

„Þessi ummæli þingmannsins voru svolítið eins og dropinn sem fyllti mælinn. Mér leið svolítið eins og mig langaði að gefast upp. Ég var bara orðin uppgefin á þessari umræðu því ég hef náttúrulega fylgst með henni mjög lengi og upplifað ýmislegt.“

Þetta segir Miriam Petra Ómarsdóttir Awad í samtali við mbl.is en hún skrifaði pistil á Facebook-síðu sína í gærkvöldi sem vakið hefur mikla athygli þar sem hún fjallar um umræðuna um fólk sem á ættir að rekja til annarra landa. Tilefnið er árásin á ritstjórnarskrifstofur franska blaðsins Charlie Hebdo í París höfuðborg Frakklands í síðustu viku en einnig ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að rannsaka ætti bakgrunn allra múslima á Íslandi. Sjálf er Miriam ekki múslimi en er ættuð frá Egyptalandi í föðurætt sína og fædd og uppalin hér á landi.

Erfitt fyrir aðra að setja sig í þessi spor

Miriam rekur í pistlinum hvernig hún hafi reglulega upplifað neikvæða framkomu frá fólki hér á landi vegna þess að hún væri af erlendum uppruna. Erfitt sé fyrir þá sem ekki hafi upplifað slíkt að setja sig í þessi spor. „Ég er ekki að ímynda mér öll þau skipti sem fólk rekst í mig, lítur síðan á mig, svipurinn breytist og það segir ekkert. Fyrirgefðu er óþarfi ef manneskjan skilur það ekki, býst ég við. Svo röltir það áfram, rekst í einhvern annan og afsakar sig með bros á vör. Öll þau skipti sem afgreiðslumanneskja í verslun segir "góðan daginn" við alla fyrir framan mig í röðinni en lítur svo flóttalega á mig þegar kemur að mér. Og segir svo ekkert, þó ég geri það.“

Þetta séu ekki tilfallandi atvik og hún sé heldur ekki sú eina sem upplifi slíkt segir hún áfram í pistlinum. „Að sjálfsögðu meina ég ekki að í hvert skipti sem einhver rekst í mig sé ég ekki beðin afsökunar eða að mér sé aldrei boðið góðan daginn þegar ég versla, en þegar maður hefur oft lent í þessu, þá tekur maður kannski betur eftir þessu þegar það gerist.“ Hvetur hún fólk til þess að hafa þetta í huga að hatur og tortryggni auki ekki á öryggi fólks heldur þvert á móti. Það verði til þess að ákveðnir hópar útilokastsem aftur geti leitt til þess að þeir sem finni fyrir hatri og tortryggni í sinn garð bregðist við með sama hætti.

Jákvætt að fleiri tali gegn fordómum

„Endilega hafið þetta í huga þegar einhver nálægt ykkur fer að tala um það sem ógnar íslenskum gildum,“ segir Miriam ennfremur í pistlinum. Það hræði hana að vita að til sé fólk sem hati hana og telji hana vera ógn við slík gildi. „Í þeirra augum er ég ógn. Og þegar hrætt fólk, þegar fáfrótt fólk, sameinast og magnar upp hatrið sem það ber í brjósti sér, þá fara hræðilegir hlutir að gerast.“ Líkt og hafi gerst í París. „Þau hræðast mig. Ég veit ekki hvers vegna samt. Ég er voðalega ljúf og góð. Og við erum það flest,“ segir hún sömuleiðis og hvetur fólk til þess að þegja ekki þegar slík sjónarmið heyrist heldur svara þeim.

Miriam segir í samtali við mbl.is að þegar hún hafi rætt þessa upplifun sína og fleiri við fólk þá hafi oft verið dregið úr því eins og hún væri að ýkja það. „Ég veit að það er ekkert illa meint. Fólk er væntanlega bara að reyna að hughreysta mig. En þegar þú hefur lent ítrekað í þessu þá er þetta ekki einhver tilviljun.“ Spurð hvort hún telji umræðuna vera að þróast í rétta átt eða ranga í þessum efnum segir hún erfitt að segja til um það. Jákvætt sé að fleiri tali á móti slíkum fordómum en hins vegar heyrist fordómafull sjónarmið líka meira. Hugsanlega vegna þess að fleiri möguleikar séu til þess að koma skoðunum sínum á framfæri með netinu.

Óþolandi þegar alhæft er um hóp fólks

„Þó það sé fullt af fólki sem er á móti fordómum þá þarf að heyrast í þeim líka. Það er líka fullt af fólki sem er ekki meðvitað um fordóma sína. Þeir sem þekkja mig segja við mig að ég sé enginn útlendingur en það er fullt af fólki sem þekkir mig ekkert. Ég þoli ekki þegar alhæft er um fólk vegna þess að það tilheyri ákveðnum hópi. Eins og þegar alhæft var um okkur Íslendinga eftir bankahrunið í útlöndum og allir voru brjálaðir yfir því. Þarna vorum við öll hluti af þessari heild en ef fólk er ekki hluti af þeim hópi sem alhæft er um þá finnur það ekki fyrir þessu,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert