Robert C. Barber er næsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi. Hann mun afhenda forseta Íslands trúnaðarbréf sitt 28. janúar næstkomandi og taka þar með formlega við embætti sendiherra.
Í stuttu myndbandi sem birtist á Facebook síðu bandaríska sendiráðsins í dag er rætt við sendiherrann um starfsferil hans, ást hans á Nýja Englandi og hafnarbolta, og áætlanir hans um að kynnast landi og þjóð. Ef marka má myndbandið er Barber spenntur fyrir nýja starfinu.
Bandarískur sendiherra hefur ekki verið hér á landi frá því að Luis E. Arreaga lét af embætti í nóvember 2013. Eins og fram hefur komið í fyrri fréttum tók Öldungadeild Bandaríkjaþings sér langan tíma til þess að samþykkja Barber og fleiri nýja sendiherra sem tilnefndir höfðu verið af Barack Obama Bandaríkjaforseta. Obama skipaði Barber í embættið í október 2013. Öldungadeildin samþykkti loks skipun hans fyrir jól.
Í myndbandinu tók Barber sig til og spreytti sig á íslensku. Býður hann góðan daginn og segir hversu ánægjulegt og mikill heiður það sé fyrir hann að vera næsti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Sendiherrann færir sig þó fljótlega í enskuna en lýkur myndbandinu með orðunum „Sjáumst á Íslandi!“ á fínni íslensku.
Myndbandið má sjá hér að neðan.