Spellvirkjar hafa lagt leið sína um Langholtsveg í dag þar sem búið er að eyðileggja minnisvarða sem settur var upp til heiðurs hins landsþekkta mótmælanda Helga Hóseassyni. Minnisvarðinn er bekkur með áföstu skilti sem ber eitt af þekktustu slagorðum Helga. Skiltið hefur hins vegar verið brotið.
Helgi var þekktur fyrir mótmæli sín allt frá árinu 1962 gegn meintu órétti sem honum finnst hann hafa verið beittur af íslenska ríkinu allt frá því að hann fæddist. Í seinni tíð mótmælti hann einnig stuðningi Íslensks ríkisvalds við stríð og ójöfnuð.
Helgi lést 6. september 2009 og í ágúst 2010 var minnisvarðinn settur upp. Var um að ræða einkaframtak fjögurra manna sem vildu með þessu heiðra minningu Helga. Í næstum fjögur og hálft ár fékk minnisvarðinn því að standa óáreittur á Langholtsvegi þar sem Helgi stóð jafnan með mótmælaspjöld sín.