Vilja draga umsóknina til baka

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Komi fram ný þingsályktunartillaga á Alþingi um að draga umsóknina um inngöngu í Evrópusambandið til baka munu sjálfstæðismenn styðja hana. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í fréttum Ríkisútvarpsins í dag.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði nýverið að hann ætti von á því að tillaga um að draga Evrópusambandsumsóknina til baka yrði lögð fram á Alþingi á vorþinginu. Þá hefur Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lýst því yfir að hans afstaða til málsins hafi ekki breyst síðan slík tillaga var lögð fram fyrir tæpu ári síðan. Ef eitthvað væru meiri rök fyrir því að draga umsóknina til baka í dag en hafi verið þá.

„Þetta er tillaga sem við studdum í fyrra og kemur ekki á óvart að sé í umræðunni núna enda hefur hún verið í þingmálaskránni hjá utanríkisráðherra frá því í haust. Það hefur í sjálfu sér ekkert breyst frá því málið var lagt fram síðast,“ sagði Bjarni. Spurður hvort sjálfstæðismenn myndu þar með styðja slíka þingsályktunartillögu svaraði hann: „Jájá, við myndum gera það með sama hætti og við gerðum síðast.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka