„Kolvitlaust“ veður á Austurlandi

Eins og sjá má á þessari mynd er víða ófært …
Eins og sjá má á þessari mynd er víða ófært á Austurlandi. Skjáskot af vef Vegagerðarinnar

Björgunarsveitir voru að störfum í kringum Egilsstaði í kvöld en þar fer veður hratt versnandi. Að sögn lögreglu á Egilsstöðum er búið að loka vegum allt í kringum bæinn, þar á meðal vegunum í gegnum Fagradal og Fjarðarheiði. 

Slæmt veður og ófærð er á Austur- og Norðurlandi. Að sögn lögregluþjóns á Eskifirði er þar „kolvitlaust veður“ sem einkennist af miklu roki, blindu og skafrenningi. Er bæði ófært til Neskaupsstaðar og Egilsstaða og fáir á ferli. 

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni kemur skarpt lægðardrag norðri og fer suður yfir landið í nótt. Um landið norðaustanvert verður verulegt skafrenningskóf og stormur, en gengur niður seint í nótt. Að auki verður ofanhríð og lítið skyggni á Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum um tíma. Samkvæmt tilkynningu gengur vindur þar ekki niður fyrr en komið er fram á morguninn. Reiknað er með vindhviðum 30-40 metrar á sekúndu um tíma í kvöld austan Hornafjarðar og í nótt undir Eyjafjöllum og við Lómagnúp.

Hálka er víðast hvar á vegum Suðurlandi en þæfingur á nokkrum leiðum í uppsveitum og þungfært í Kjósarskarði. Er jafnframt hálka og hálkublettir á flestum vegum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er hins vegar snjóþekja, éljagangur og skafrenningur. Lokað er um Súðavíkurhlíð fyrir allri umferð vegna snjóflóða, og verður staðan metin í fyrramálið. Þæfingsfærð er á Hálfdáni, Mikladal, og Kleifaheiði en snjóþekja er á Klettshálsi og skafrenningur.

Á Norðurlandi er hálka, snjóþekja, skafrenningur og víða stórhríð. Búið að að loka Víkurskarði fyrir allri umferð. Ófært er á Grenivíkurvegi og Þungfært hjá Dalsmynni. Þæfingsfærð og stórhríð er á Öxnadalsheiði og Ljósavatnsskarði. Þæfingsfærð er á milli Sauðárkróks og Hófsóss.

Samkvæmt tilkynningu er víða óverður, skafrenningur og hálka á Norðurlandi eystra og Austfjörðum. Ófært er frá Mývatni austur á Jökuldal, þar er mjög hvasst og stórhríð. Vegurinn á Fjarðarheiði og í Oddskarði er lokaður. Hálka og skafrenningur er með suðausturströndinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert