Í fundargerðum bankaráðs Englandsbanka frá árinu 2008, sem birtar voru í ársbyrjun, kemur fram að bresk fjármálayfirvöld litu hugmyndir um Ísland sem mögulega fjármálamiðstöð hornauga. Þetta var á meðal þess sem kom fram á hádegisfundi Félags stjórnmálafræðinga og Rannsóknaseturs um nýsköpun og hagvöxt, þar sem þeir Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði, og Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, greindu frá nýjum heimildum sem þeir hafa kannað í erlendum skjalasöfnum um fall íslensku bankanna haustið 2008, sem og hvaða ályktanir væri hægt að draga af þeim.
„Þröngt mega sáttir sitja“ hefðu getað verið einkunnarorð fundarins, þar sem ljóst var að áhugi fólks á fundarefninu var meiri en húsrýmið sem fyrirlestrasalurinn á Háskólatorgi veitti. Stóð því fólk meðfram veggjum. Guðni hóf erindi sitt á því að fjalla um þau vandkvæði sem fylgdu því að sækja gögn til erlendra skjalasafna, sér í lagi þegar þau tækju til atburða sem væru nýliðnir.
Sýndi Guðni í því skyni nokkrar ljósmyndir af þeim skjölum sem hann hafði aflað sér frá breska þjóðskjalasafninu í krafti upplýsingalaga og voru sum þeirra nánast svört í gegn, þar sem búið var að strika yfir nánast allt meginefni þeirra. Þá fylgdu því einnig vandamál hvernig ætti að túlka það sem þó mætti lesa úr gögnunum, þar sem hafa yrði ýmsa þætti í huga, eins og til dæmis það hver hefði verið tilgangur þess sem ritaði heimildina.
Sagði Guðni að miðað við sínar heimildir væru nokkrir hlutir ljósir. Til dæmis nefndi hann að frægt viðtal í Kastljósi við Davíð Oddsson, þáverandi seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, þar sem hann lýsti því yfir að ríkið myndi ekki ganga í ábyrgð fyrir skuldir „óreiðumanna“, hefði ekki haft nein áhrif meðal þeirra bresku embættismanna sem sáu um samskiptin við Ísland.
Þá væri einnig ljóst af tiltækum heimildum að fréttatilkynning Seðlabanka Íslands um tilvonandi lán frá Rússlandi hefði ekki orðið til þess að fæla stjórnvöld í Moskvu frá því að veita lánið, líkt og haldið hefði verið fram í umræðu hér heima, heldur hefði lánið verið raunhæfur möguleiki.
Í máli Guðna kom einnig fram að sú leið sem íslensk stjórnvöld hefðu ætlað sér að fara, þar sem erlendar skuldir yrðu skildar eftir, en ríkið tæki yfir innlendar skuldbindingar, hefði verið dæmd til að mistakast. Skipti þar ekki síst máli að innan breska stjórnkerfisins hafði fjármálaráðuneytið undir forystu Alistairs Darling allt forræði á hendi en utanríkisráðuneytið hafði verið skilið eftir í kuldanum. Sagði Guðni það óheppilegt, því að innan utanríkisráðuneytisins hefði verið meiri þekking á málefnum Íslands, auk þess sem menn sem þar störfuðu væru eðli málsins samkvæmt líklegri til þess að leita „friðsamlegri“ lausna heldur en starfsfólk fjármálaráðuneytisins.
Guðni tók fram að hann sæi ekki neitt sem styddi við svonefnda „umsáturskenningu“, en samkvæmt henni hefðu erlend ríki tekið höndum saman um að knésetja Íslendinga.
Benti Guðni á í lok erindis síns, að enn væri margt sem ekki væri vitað, og að í raun væru sagnfræðingar og aðrir enn í þónokkru myrkri um það sem hefði gerst. Það væri þó jákvætt að nokkur ljósbirta væri farin að skína og að hún yrði einungis meiri eftir því sem á liði.
Hannes Hólmsteinn tók næstur til máls. Fór hann nokkrum orðum um orsakir bankahrunsins og benti á að lýsing á atburðum mætti ekki staldra við að segja að glas væri brothætt, til þess að það brotnaði yrði að fleygja því. Sömuleiðis hefði bankahrunið ekki orðið vegna þess að ástandið hefði verið viðkvæmt, heldur vegna ákvarðana sem menn hefðu tekið.
Nefndi Hannes sérstaklega þrjár ákvarðanir, sem að hans mati skiptu sköpum. Í fyrsta lagi þegar seðlabanki Bandaríkjanna hefði neitað Íslendingum um gjaldeyrislán, í öðru lagi þegar ríkisstjórn Bretlands hefði neitað að aðstoða bresku bankana KSF og Heritable á sama hátt og aðra breska banka og í þriðja lagi þegar hryðjuverkalög voru sett á íslenska ríkið ásamt Landsbankanum.
Bar Hannes saman aðstæður íslensku bankanna við erlenda banka og benti á að aðstæður þeirra hefðu hvorki verið verri né betri en annarra banka sem lentu í erfiðleikum. Munurinn væri sá að íslensku bönkunum hefði ekki verið bjargað.
Hannes velti meðal annars fyrir sér ástæðum þess að sumar erlendar þjóðir virtust sýna Íslendingum hreinan fjandskap á þessum dögum. Nefndi hann meðal annars óánægju með þá samkeppni sem Íslendingar hefðu veitt erlendis. Þá nefndi Hannes einnig sem möguleika að sjálfstæðismál Skota hefði getað verið þáttur, þar sem Verkamannaflokkurinn hefði viljað sýna þeim hvað sjálfstæði gæti kostað þá.
Að loknum erindum þeirra Guðna og Hannesar fjallaði Eiríkur Bergmann Eiríksson, fundarstjóri, um erindin og dró saman. Sagði Eiríkur ljóst af eigin rannsóknum að breskir embættismenn í fjármálaráðuneytinu hefðu talið sig hafa fengið loforð um að Íslendingar myndu taka á sig skuldbindingar bankanna. Hins vegar væri óljóst hver hefði átt að gefa slíkt loforð.
Sögðu þeir Tryggvi og Hannes báðir að einn tilgangur þess að leita til Rússa hefði verið geópólitískur. Nefndi Hannes að hugsanlega hefðu Bandaríkjamenn stokkið til til þess að forða því að Íslendingar fengju lánið hjá Rússum. Hefði það gengið eftir hefði niðurstaðan orðið sú sama og með láni frá Rússum, ekki hefði komið til falls bankanna.
Rússar fréttu hins vegar að þreifingar væru um að Íslendingar hygðust leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og styggðust við það að sögn Hannesar.