Vilja enn þjóðaratkvæði um aðildarumsókn

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Árni Sæberg

Vinstri græn vilja enn að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um afdrif aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu áður en ákvörðun verður tekin um framhaldið, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa boðað að lögð verði fram tillaga um að draga umsóknina til baka.

Katrín setur þann fyrirvara við afstöðu sína að ekki búið að leggja tillöguna fram og því viti hún ekki hvort að hún verði eins og sú sem lögð var fram í fyrra. Hún telur þó að afstaða VG verði óbreytt.

„Við lögðum síðast fram okkar eigin tillögu um þessi mál sem var að halda skyndiþjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu um afdrif þessa máls. Ég á von á því að við munum fara yfir þetta. Afstaða okkar sem birtist í þeirri tillögu hefur ekki breyst. Ég á von á því að við munum ítreka hana,“ segir Katrín.

Spurð að því hvort að hún telji að afdrif ESB-umsóknarinnar verði að eins miklu hitamáli og síðasta vetur þegar fjöldamótmæli voru á Austurvelli gegn áformum ríkisstjórnarinnar um að draga hana til baka segir Katrín að mörg stórmál verði á vorþinginu. Þannig hafi verið boðuð frumvörp um náttúrupassa og fiskveiðistjórnunarkerfið, til dæmis.

„Ég held að þetta verði eitt af þessum stóru málum, tvímælalaust,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert