Ævintýrin enn gerast

Stúlknabandið The Charlies hefur sungið sitt síðasta, en meðlimirnir, Alma Guðmundsdóttir, Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir og Klara Ósk Elíasdóttir ætla að halda áfram ævintýri sínu í Los Angeles. Þar hafa þær búið saman í lítilli íbúð síðustu fimm ár og vinskapurinn hefur aldrei verið sterkari.

Frá því þær voru sem táningar valdar úr hópi hundraða til að skipa hljómsveitina Nylon hafa þær upplifað ævintýralega hluti í tveimur af stærstu borgum heimsins.

„Umgjörðin í kringum okkur úti var mjög góð strax frá fyrsta degi. Teymið var flott og hlutirnir voru í lagi. Við vorum langt frá því að vera ríkar, en okkur var búið þannig umhverfi að við gátum lifað af tónlistinni. Við bjuggum fyrsta árið aðallega á annars flokks hótelum og í rútu, en bara það að geta lifað af tónlistinni var algjörlega frábært,“ segir Steinunn.

Ólíkt því sem margir sjá fyrir sér er líf langflestra tónlistarmanna langt frá því að vera uppfullt af glamúr og gengur miklu frekar út á mikinn aga og dugnað.

„Við vorum á sama tíma og við vorum í tónleikaferðalagi á svokölluðum „School tour“, til að reyna að byggja upp markhóp ungra aðdáenda, þannig að við vöknuðum fyrir allar aldir til að setja á okkur kvöldfarðann og fórum svo í breska grunnskóla og sungum og dönsuðum,“ segir Alma.

„Svo komu spurningar á eftir, þaðan fórum við oftar en ekki beint á útvarpsstöðvar og ef það var ekki tónleikaferðalag í gangi fóru kvöldin í ,,gigg“ á smærri stöðum. Svona gekk þetta dag eftir dag og þetta var frá fyrsta degi brjáluð vinna og ekki alveg sami glamúrinn og margir halda. Við sáum strax að það væri lítill tími fyrir djamm eða vitleysu ef dæmið ætti að ganga upp og ég held ég geti með góðri samvisku sagt að við höfum allar verið gríðarlega einbeittar frá fyrsta degi,“ segir Steinunn.

Árið 2009 komst alvöru skriður á málin og þær fóru loks út til Los Angeles, meðal annars til þess að hitta yfirmenn plötufyrirtækisins Hollywood Records.

„Við mættum þarna skjálfandi á beinunum, ein af okkur fárveik og uppfullar af stressi. Forstjórinn sjálfur tók á móti okkur á skrifstofunni sinni, þar sem okkur var boðið upp á viskí og spurðar hvort við værum ekki klárar í slaginn. Okkur var boðið að syngja á staðnum, sem við gerðum. Þrírödduð lög án undirleiks og í kjölfarið var okkur boðið að skrifa undir samning á staðnum. Okkur fannst við hafa himin höndum tekið og vorum alsælar. En eftir á að hyggja hefði fólkið í kringum okkur átt að ráðleggja okkur betur. Þegar þú færð samning á borðið áttu að fara með hann í öll önnur möguleg plötufyrirtæki og bíða með ákvörðun, í stað þess að skrifa strax undir eins og við gerðum,“ segir Steinunn.

Frá árinu 2013 hefur stefnt í endalok stúlknabandsins The Charlies, þó að það sé ekki fyrr en nú fyrst sem ákvörðunin liggur endanlega fyrir. Þær hafa ákveðið að ljúka því tímabili formlega, en munu þó allar vinna áfram í tónlist og halda áfram að búa saman. Eins segja þær nánast sjálfgefið að þær muni að einhverju marki starfa saman að verkefnum þegar þar að kemur.

„Það er töluvert síðan við áttuðum okkur á því að hæfileikar okkar liggja á ólíkum sviðum, þó að þeir skarist líka. Allt þetta margra ára ferli hefur skerpt á því. Ég hef lengi fundið að mig langar mest að vinna að því að koma tónlist á framfæri og er að fara að stofna fyrirtæki með Soffíu Kristínu Jónsdóttur. Fyrirtækið mun heita Iceland Sync og mun meðal annars sérhæfa sig í að koma íslensku efni til Bandaríkjanna. Við erum þegar byrjaðar að vinna með nokkrum listamönnum, en það þarf varla að taka það fram að ég mun að sjálfsögðu vilja vinna með Ölmu og Klöru í að koma þeirra efni á framfæri,“ segir Steinunn.

„Ég vil einbeita mér að því að semja tónlist fyrir aðra, en mun líka syngja eitthvað sjálf. Hluti af því verður tónlist sem verður væntanlega ólík því sem við höfum gert saman, en það verður að fá að koma dálítið í ljós með tímanum,“ segir Alma.

„Ég mun fyrst og fremst halda áfram að syngja og er komin með drög að plötu, sem ég vona að Íslendingar fái að heyra fyrstir von bráðar,“ segir Klara.

Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir, Klara Ósk Elíasdóttir og Alma Guðmundsdóttir.
Steinunn Þóra Camilla Sigurðardóttir, Klara Ósk Elíasdóttir og Alma Guðmundsdóttir. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert