Laun kvenna hjá Einingu-Iðju á Akureyri hafa hækkað heldur meira en karla á síðustu fjórum árum. Þetta kemur fram í launakönnun sem Capacent gerði fyrir Einingu-Iðju í samstarfi við AFL starfsgreinafélag.
Þessar kannanir eru byggðar á sambærilegum könnunum sem Efling, Hlíf og Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur hafa látið gera fyrir sig í nokkur ár og því unnt að bera saman niðurstöður að verulegu leyti. Þegar heildarlaun félagsmanna Einingar-Iðju eru skoðuð, þ.e. hjá þeim sem eru í fullu starfi, má sjá að þau eru að meðaltali 372.000 krónur og hafa þau hækkað um 60 þúsund krónur (19,3%) frá því er fyrsta könnunin var gerð haustið 2011. Ef meðal heildarlaun svarenda eru skoðuð milli kynja, þá eru karlmenn með kr. 409.262 en voru í fyrra kr. 396.607. Konurnar eru með kr. 338.313 en í fyrra var upphæðin kr. 302.066. Hækkunin á tímabilinu er heldur meiri hjá körlum heldur en konum. Þannig hafa heildarlaun karla hækkað um 73 þúsund á síðustu tveimur árum eða um 21,6% meðan heildarlaun kvenna hafa hækkað um 56 þúsund krónur eða 20,0%. Ef aðeins er skoðuð hækkun milli áranna 2013 og 2014 á heildarlaunum þá hækkuðu karlar að meðaltali um 3,2% en konur um 12%.
Í könnuninni kom fram að 65% félagsmanna segjast styðja hugsanlegar verkfallaaðgerðir, þurfi á annað borð að grípa til þess ráðs.
í dag hefur staðið yfir í Hofi á Akureyri fundur hjá Einingu-Iðju þar sem rúmlega 100 félagsmenn fara yfir ýmis mál varðandi kjaraviðræður sem framundan eru. Um er að ræða sjöunda fundinn sem félagið hefur staðið fyrir á öllu félagssvæðinu í vikunni. Fyrstu fundirnir sex voru haldnir á Akureyri, Grenivík, Hrísey, Ólafsfirði, Dalvík og Siglufirði og voru opnir öllum félagsmönnum. Þessir fundir eru m.a. tækifæri fyrir alla félagsmenn til að koma fram með hugmyndir að launakröfum félagsins í kröfugerð sem send verður til samninganefndar Starfsgreinafélagsins í næstu viku.
Fundurinn í dag er með svokölluðu þjóðfundarfyrirkomulagi, en með því fyrirkomulagi ná vonandi sem flest sjónarmið að koma fram, enda um að ræða afkomu almenns launafólks næstu misserin. Á fundinn voru boðaðir félagsmenn sem sitja í samninganefnd félagsins, trúnaðarráði auk trúnaðarmanna sem ekki sitja í þessum nefndum. Í byrjun fundar kynnti Sigríður Ólafsdóttir frá Capacent niðurstöður kjarakönnunar sem gerð var fyrir félagið. Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur hjá ASÍ, var að ljúka við að fara yfir laun og launaþróun í aðdraganda kjarasamninga. Eftir hádegi verður unnið í hópum þar sem rætt verður út frá sömu spurningum og lagðar voru fyrir á fundunum sex búið var að halda í vikunni, m.a um launahækkanir og lengd samnings. Eyrún Björk Valsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar ASÍ, skipulagði vinnuna og mun hafa yfirumsjón með henni.
Björn Snæbjörnsson, formaður félagsins og SGS, segist vera mjög ánægður með þá mætingu sem félagið hefur fengið á fundina. „Það er mjög góð samheldni á þessum fundi. Menn ræða um ýmislegt, krónutöluhækkanir, verðbólgu og það sem aðrir hafa verið að semja um.“
Verkalýðshreyfingin er að undirbúa kjaraviðræður við atvinnurekendur, en kjarasamningar eru lausir í vetur. Björn segir þá góðu umræðu sem farm hafi farið á fundunum veita samningamönnum aukinn kraft til að fara í þá vinnu sem framundan. Samstaða sé númer eitt, tvö og þrjú.