„Ég læt þetta ekki á mig fá, þetta eflir mig frekar í mínu,“ segir Nadia Tamimi, sem í gær hélt ræðu á málþingi um stöðu múslima, en hún hefur nú birt nafnlaus hatursskilaboð sem henni bárust í gærkvöldi.
Nadia er múslimi, en hún sagði í samtali við mbl.is í gær að hún væri komin með nóg af fordómum, og því hafi hún ákveðið að segja sögu sína.
„Það kom fjöldi neikvæðra skilaboða inn á kommentakerfi við fréttir í gær, en þetta eru einu skilaboðin sem ég hef fengið persónulega. Maður verður bara að þola það,“ segir Nadia, en bætir við að stærstur hluti skilaboða sem henni bárust í gær hafi verið jákvæð. „Ég hef fengið mjög mikið af jákvæðum póstum og einkaskilaboð frá fólki sem ég þekki ekki neitt og vildi sýna stuðning. Hitt fölnaði gjörsamlega í samanburði.“
Nadia ákvað í kjölfar skilaboðanna að birta framvegis öll hatursskilaboð sem hún fær opinberlega á Facebook-síðu sinni. „Ég held að það sé bara gott að fólk fái að sjá þetta, þá fer fólk kannski aðeins að sjá af sér áður en það sendir svona.“
Skilaboðin koma frá nova.is, en símafyrirtækið getur ekki rakið skilaboðin að sögn Nadiu. „Það eina sem þeir geta gert er að loka fyrir númerið mitt á nova.is, en unglingsstrákurinn minn notar vefsíðuna stundum til að senda mér skilaboð svo ég get ekki gert það.“
Þá segir hún mjög erfitt að kæra skilaboð sem þessi, enda sé ekki um eiginlega hótun að ræða. „Þetta er svo sannarlega áreiti en það er lítið hægt að gera í því.“
Í ræðu sinni tók Nadia nærtækt dæmi um það þegar amma hennar var myrt á heimili sínu í Espigerði árið 1999. „Það var íslenskur kristinn maður sem réðst á hana af tilefnisleysi og stakk hana hrottalega 17 sinnum. Ég hef aldrei hugsað um að dæma Íslendinga eða kristna menn út frá þessu. Ég dæmi aðeins þennan eina mann fyrir það sem hann gerði,“ sagði hún.
Nadia segir fólk hafa gagnrýnt hana fyrir að taka þetta dæmi, þar sem amma hennar hefði ekki verið myrt í trúarlegum tilgangi. „Þeim finnst þetta ekki góð samlíking en ég er aðallega að benda fólki á að dæma einstaklinga út frá gjörðum sínum en ekki heilu trúarhópana eða eftir þjóðerni. Það var tilgangurinn með því að taka þetta dæmi.“
Loks segist hún mjög ánægð með það að hafa haldið ræðuna, og vonast til þess að hún hafi vakið einhverja til umhugsunar. Þá segist hún vera í skýjunum með góðu viðbrögðin og samhuginn sem hún hefur fundið fyrir.
Frétt mbl.is: „Komin með nóg af fordómum“