Árásirnar í París voru villimannslegar og hafa ekkert með íslam að gera, segir Ahmad Seddeeq, imam Menningarseturs múslima á Íslandi, um hroðaverkin sem framin voru í höfuðborg Frakklands í síðustu viku.
„Í fyrsta lagi vitum við ekki hver stóð að baki þessu og í öðru lagi er í öllum trúarbrögðum að finna fólk sem hefur öfgafulla afstöðu. Og það er eitthvað sem við fordæmum. Að okkar mati á að fást við það á einstaklingsgrundvelli en ekki tengja það við trúna, því það kemur illa niður á múslimum. Það eru múslimar um allan heim og það kemur niður á daglegu lífi múslima,“ segir Seddeeq, og nefnir í þessu samhengi ummæli Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um bakgrunnskannanir á íslenskum múslimum.
Seddeeq segir Ísland þekkt fyrir að vera opið land, þar sem ólíkt fólk búi saman í sátt og samlyndi, og kallar eftir uppbyggilegri umræðu um hvernig koma megi í veg fyrir árásir af þessu tagi, í stað þess að ráðast gegn múslimum.
Það vekur athygli að á Facebook-aðgangi Menningarsetursins er að finna myndband þar sem frásagnir af atburðum liðinnar viku eru dregnar í efa. Spurður að því hvað hann meinar þegar hann segir að ekki sé vitað hverjir hafi staðið að baki árásunum segir Seddeeq:
„Við vitum ekki hvað er í gangi. En við múslimar fordæmum þessa verknaði. Hverjir standa að baki þeim? Því hefur verið lýst yfir að það hafi verið múslimar, fjölmiðlar segja að þeir séu múslimar. Þeir hafa verið drepnið og málinu er lokið. Það er það sem hefur verið tilkynnt,“ segir Seddeeq.
Hann bendir á að í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum 11. september 2001, hafi margir haldið því fram að um samsæri hafi verið að ræða. Öðru fremur skipti þó máli hvernig menn takist á við atburði af þessu tagi og að forðast frekari átök.
Imam Seddeeq segir nauðsynlegt að spyrja að því af hverju menn grípi til voðaverka á borð við þau sem framin voru í síðustu viku. Hvað varðar skopmyndirnar af Múhameð spámanni, segir hann að fólk ætti að bera virðingu fyrir trúarbrögðum, en jafnframt að spámaðurinn hafi verið miskunsamur og fyrirgefið ofsóknir og vanvirðingu.
Spurður um rétt Charlie Hebdo til að gera grín að einu og öllu bendir Seddeeq á að svo virðist sem einhver mörk hafi verið dregin af blaðinu, þar sem starfsmanni þess var sagt upp fyrir að gera grín að gyðingum.
Hann ítrekar mikilvægi þess að sýna öðrum virðingu.
„Þegar einhver hópur upplifir að verið sé hæðast að leiðtoga hans.. Múslimar elska Múhameð meira en sjálfa sig, foreldra sína, og það er ástæða þess að fólk bregst við án.. Það hefur ekki nægilega þekkingu. Það hafa ekki allir nægilega þekkingu á trúnni, og því bregðast þeir stundum við á hörmulegan hátt,“ segir imam Seddeeq. „En með menntun lærum við að stjórna hegðun okkar, af því að við fylgjum Múhameð spámanni. Og við þurfum að skilja hvernig hann brást við ólíkum aðstæðum á borð við þessar; við gagnrýni,“ segir hann.