Eftir að Bandaríska varnarliðið hélt af landi brott árið 2006 tók ljósmyndarinn Bragi Þór Jósefsson myndir af því sem fyrir augu bar á svæðinu og eru nú sýndar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur á sýningunni Varnarliðið. Þar má sjá tómlegar vistarverur sem heilt samfélag skildi eftir sig og hafa nú tekið á sig aðra mynd.
Í samtali við Einar Fal Ingólfsson í Morgunblaðinu segir Bragi að „... þetta yrði allt að ljósmynda vandlega, það væri nauðsynlegt fyrir sögu landsins, því svæðið myndi eflaust breytast hratt. Þá ákvað ég að taka þarna persónulegar, listrænar heimildarljósmyndir.“
Síðan þá hefur svæðið og byggingarnar sem Bragi myndaði tekið miklum breytingum. Á varnarliðssvæðinu voru verslanir, skólar, sjúkrahús, kvikmyndahús, íþróttahús og skemmtistaðir auk íbúðarhúsa og hernaðarmannvirkja. Svæðið var girt af og lokað og þar var allt með öðru sniði en Íslendingar áttu að venjast.