Ekkert lát virðist vera á flutningum Íslendinga til starfa á hinum Norðurlöndunum, því enn er mikil eftirspurn eftir störfum í Noregi að sögn verkefnisstjóra hjá EURES-vinnumiðluninni sem rekin er á vegum Vinnumálastofnunar. Nú er hópurinn sem þangað leitar talsvert fjölbreyttari en hann var fyrst eftir bankahrun. Þá var mikið um iðnaðarmenn en nú leitar þangað fólk með ýmsa menntun og starfsreynslu.
Árin 2008 til 2013 fluttu fleiri en 17.000 Íslendingar til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Að viðbættum tölum fyrir fyrstu þrjá fjórðunga síðasta árs, en heildartölur liggja ekki fyrir, hafa um 20.000 Íslendingar flutt til landanna þriggja á þessu tímabili.
Marín Kristjánsdóttir og Magnús Þór Gunnarsson fluttu frá Hafnarfirði til Bergen í Noregi fyrir tæpum þremur árum ásamt Lindu dóttur sinni. Þau láta vel af búsetunni, vinnutíminn sé styttri og þar sé ýmislegt gert til að létta ungu fólki róðurinn í námi og íbúðarkaupum. Þá segja þau Norðmenn taka afar vel á móti Íslendingum.
Hjónin eru í svipuðum störfum þar ytra og þau voru í hér heima og því hægt um vik að bera saman kaup og kjör. „Við umreiknum ekki í íslenskrar krónur til að bera saman launin,“ segir Magnús. „Við miðum við neysluvörur; hvað við fáum marga lítra af mjólk eða bensíni fyrir tímakaupið. Útkoman er sú að laun eru um tvöfalt hærri hér í Noregi.“
Fjölskyldan í Bergen er meðal þeirra mörg þúsund Íslendinga sem hafa flutt til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar á síðustu árum. Ástæðurnar fyrir flutningnum eru mismunandi, eins og blaðamaður Morgunblaðsins komst að raun um þegar hann sótti nokkra úr þessum hópi heim. Þau viðtöl má lesa í Morgunblaðinu í dag og næstu fimm daga.