Matarfíkn er raunverulegt vandamál sem vísindasamfélagið þarf að verða opnara fyrir. Þetta segir Dr. Vera Tarman, yfirlæknir á stærstu meðferðarstöð Kanada við vímuefnafíkn sem heldur fyrirlestra um matarfíkn á málþingi Félags Fagfólks um Offituvandann í dag og á vegum Matarheilla í Háskólanum í Reykjavík á morgun.
Dr. Tarman hefur unnið með fíknivanda í rúm 20 ár. Hún segist fyrst hafa fengið áhuga á matarfíkn þegar hún varð vör við að margir þeirra sjúklinga sem hún meðhöndlaði vegna áfengis- og/eða vímuefnavanda þróuðu með sér fíkn í mat eftir að þeir hættu að nota önnur vímugefandi efni.
„Þetta voru alkóhólistar og eiturlyfjafíklar sem komu til mín þrem vikum eftir að þeir hættu og sögðust borða stanslaust. Þá fór ég að sjá að hegðunarmunstrið var það sama, þeir höfðu bara yfirfært það á matinn,“ segir Dr. Tarman.
Dr. Tarman hóf að grennslast fyrir um málið en einu vísindalegu upplýsingarnar sem hún fann um ofát voru á grundvelli átröskunarsjúkdóma. Slíkar greiningar pössuðu ekki fullkomlega við þá sem Dr. Tarman hafði til meðferðar. Margir tóku vissulega átköst og/eða seldu upp en það var mörg önnur hegðun tengd mat sem passaði ekki inn í myndina.
„Stundum sögðu sjúklingarnir að [matarfíknin] væri verra en kókaín fíknin því þeim liði allavega eins og þeir hefðu einhverja stjórn á henni. Aðrir sögðu að þeir vildu frekar drekka og reyna að gera það hóflega en það sem þýddi auðvitað að þeir féllu aftur í sama farið,“ segir Dr. Tarman. Hún segir ljóst að fitufordómar samfélagsins spili þar sterkt inn í og segir ljóst að slíkir fordómar haldi einnig aftur að fjármagni til rannsókna á matarfíkn.
Dr. Tarman segir mikilvægt að nota sömu hugmyndafræði þegar kemur að matarfíkn og notuð er í meðferð annarra fíkla sérstaklega þegar kemur að offeitum sjúklingum. „Margir hugsa ekki um offitu út frá sjónarhóli fíknarinnar en ef við bætum þeirri vídd við gætum við séð meðferð við [offitu] í nýju ljósi.“
„Sú hugmyndafræði sem er notuð núna í heimi offitu gengur út á að leita eftir sálfræðilegum ástæðum fyrir ofátinu og leita leiða til að fá einstaklinginn til að borða „eðlilega“ eða hóflega,“ segir Dr. Tarmann. Hún segir það fela í sér þversögn frá sjónarhóli fíknarinnar þar sem fólk sem er háð ákveðnum matartegunum, s.s. sykri mun aldrei geta átt eðlilegt samband við þær aftur. Sjúklingarnir eru þá eins og óvirkir vímuefnaneytendur sem eru byrjaðir að „nota“ aftur.
„Þetta er eins og að spyrja alkóhólistann afhverju hann byrjaði að drekka aftur. Það er af því að hann fékk sér drykk um jólin.Hann fær sér einn drykk og heldur að hann geti fengið sér aðeins einn enn en í staðinn missir hann stjórn,“ heldur hún áfram.
„Ég segi að læknar og meðferðaraðilar eigi að reyna þetta viðhorf þ.e. að hvetja sjúklinginn til að hætta notkun þeirra matvæla sem geta valdið fíkn í a.m.k. þrjá mánuði. Eftir mánuð kemur í ljós að þráhyggjukennd ílöngunin hverfur og ef hann heldur sér frá þessum matvælum til framtíðar getur hann haldið sér í sömu þyngd í áratugi. Maður sér slíkan árangur ekki oft hjá offfeitum einstaklingum og ég tel það vera vegna þess að svo margir matarfíklar hafa ekki verið greindir.“
Ekki allir matarfíklar eru offeitir enda geta þráhyggjusamband við mat einnig leitt af sér lotugræðgi og aðrar átraskanir. Sömuleiðis segir Dr. Tarman að margir matarfíklar skilgreini sig sem óvirka matarfíkla þegar þeir hafa náð tökum á fíkn sinni.
Hún bendir á að í samfélaginu séum við oft undir þrýstingi að borða ákveðna hluti, t.a.m. í fjölskylduboðum. Blaðamaður minnist þess að hafa valdið eldri konu miklum vonbrigðum í jólaboði í desember vegna lítillar matarlystar og segir Dr. Tarman frasann „Every grandma is a pusher“ (Sérhver amma er dópsali) viðurkenndan meðal þeirra sem vinna með matarfíkn.
„Matur var ekki eins og nú hjá þeirri kynslóð. Amma var kannski vön því að fá klementínur og kökusneið um jólin en hún bjó ekki í þessum heimi þar sem matur er hannaður til þess að vera ávanabindandi.“
Dr. Tarman telur mikilvægt að fólk ýti ekki mat upp á aðra en einnig telur ljóst að til þess að vitundarvakning verði um matarfíkn þurfi fræðasamfélagið fyrst að taka frumkvæði með aukinni viðurkenningu.
„Það er mikið auðveldara að segja að fólk sé ógeðslegt en að segja að það sé veikt. Þegar fræðasamfélagið viðurkennir matarfíkn munu fjölmiðlar einnig byrja að gera það og það mun smita útfrá sér til almennings.“
Með fyrirlestrum sínum um matarfíkn segist Dr. Tarman gjarna vilja fjarlægja þá smán sem fylgir fíkn og offitu. Sömuleiðis vill hún gera meðferðaraðila og þá sem hafa áhyggjur af eigin þyngd meðvitaða um að fíkn geti spilað hlutverk þegar kemur að offitu.
„Ef þú leitar að lausnum eins og lyfjum eða skurðaðgerðum eru þær í besta falli tímabundnar. Ekki leita til lækna eftir lokasvari, svarið þarf alltaf að verða lífstílsbreyting.“
Á fyrirlestri sínum á morgun mun Dr. Tarman einnig bjóða bók sína <em>Food Junkies: The Truth About Food Addiction</em> til sölu. Segist hún hafa skrifað hana jafnt fyrir fagfólk sem og þá sem vilja kynna sér matarfíkn. Segir hún bókina geta hjálpað fólki að gera sér betri grein fyrir eigin sambandi við mat og hvort það sé haldið matarfíkn eða ekki.