Þegar Sara Björnsdóttir, sjúkraliði og nemi í mannfræði, var orðin rúmlega þrjátíu ára fór hún að huga að barneignum. Hún velti málinu fyrir sér í nokkur ár en eftir að yngri systir hennar varð móðir tók hún ákvörðun, nú vildi hún sjálf eignast barn.
Í kjölfarið hafði hún samband við Art Medica, tæknifrjóvgunarstofu og lækningastöð, og fékk fyrsta viðtalstímann vegna tæknisæðingar fjórum mánuðum síðar. Í dag býr Sara í Hafnarfirði ásamt dóttur sinni sem er rúmlega tveggja ára.
Hún er einstök móðir, ein af þeim mæðrum sem kosið hafa að eignast barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar hér á landi. Í ár eru sjö ár frá því að einhleypum konum var gert kleift að eignast barn með tæknifrjóvgun eða með ættleiðingu.
mbl.is mun á næstu dögum fjalla um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu.
„Til að gera langa sögu stutta þá langaði mig í barn. Ég var ekki að sjá fyrir að ég myndi eignast maka á næstunni og ég nennti ekki að bíða,“ segir Sara í samtali við blaðamann mbl.is.
Ákvörðunin var ekki tekin á einu kvöldi, hún velti málinu fyrir sér í nokkur ár. Margar spurningar fóru í gegnum hugann og velti Sara meðal annars fyrir sér hvort ætti yfirhöfuð að leggja í þetta upp á eigin spýtur.
Sara fór í fyrsta viðtalið hjá Art Medica í apríl 2011 og eftir þriðju tæknisæðinguna varð þungunarprófið jákvætt. Algengt er að nokkrar tilraunir þurfi til áður en konan verður þunguð og bendir Sara á að aðeins séu um 15 til 20% líkur á því að tæknisæðing heppnist.
Eftir að konan hefur farið í uppsetninguna þarf hún að bíða í tvær vikur með að taka þungunarpróf. Ef lífið kviknar ekki er hún aftur á móti byrjuð á blæðingum áður en að því kemur því að taka próf.
„Þessi tvö skipti sem þetta tókst ekki voru hræðileg, þetta var eins og að missa barn,“ segir Sara og viðurkennir að biðin hafi verið erfið. Á meðan hún beið velti fyrir sér hvernig barnið sem hún gengi hugsanlega með væri og hversu æðislegt það yrði að verða móðir.
Sara sagði systur sinni og móður frá því að hún hefði tekið ákvörðun um að eignast barn með tæknifrjóvgun. Öðrum ættingjum og vinum sagði hún frá óléttunni þegar leið á. „Fyrir mér er ekki í eðli mínu að ræða svona mál. Ég sagði stjúppabba mínum reyndar frá því þegar ég var komin fjórar vikur á leið og hann heimtaði að koma með í snemmsónar,“ segir Sara og brosir.
Hún efaðist aftur á móti aldrei eftir að þungunarprófið varð jákvætt og segist aldrei hafa óttast að eitthvað kæmi fyrir barnið á meðgöngunni.
Vel var tekið á móti Söru hjá Art Medica og segist hún hafa fengið mjög góða þjónustu hjá læknum fyrirtækisins. „Þjónustan þarna gengur aftur á móti mjög mikið út á pör,“ segir hún og bendir á að auglýsingar á veggjum og efni á heimasíðu hafi aðallega höfðað til para sem þurfi á aðstoð Art Medica að halda.
Á veggjunum hafi til að mynda hangið auglýsing um félag fyrir pör sem eiga við ófrjósemi að stríða og telur Sara mikilvægt að höfða einnig til annarra hópa sem nýta sér aðstoð fyrirtækisins.
Aðspurð segist Sara lítið hafa leitað að reynslusögum kvenna sem höfðu gengið í gegnum ferlið þegar hún var að taka ákvörðunina. Hún hafi þó skoðað heimasíðu Art Medica og þá hafi spjallþræðir í lokuðum hópi Félags einstakra mæðra gefið henni tækifæri til að lesa skoðanir annarra og miðla sínum eigin.
Vinir og ættingjar Söru tóku fréttunum af barninu sem var væntanlegt í heiminn afar vel. Margir sögðu að hún væri sjálfstæð og voru ánægðir með að hún hefði tekið þessa ákvörðun. Aðspurð segist Sara aðeins einu sinni hafa fengið neikvæða athugasemd en hún kom frá samstarfskonu hennar.
„Hún sagði, þú ert svo sjálfselsk, þú ert að búa dóttur þína undir ævilanga sorg að neita henni um föður,“ hefur Sara eftir konunni. „Ég sagði henni aftur á móti að það væri alltaf sjálfselskt að eignast barn, þig langar í barn, þú ert ekki að eignast barn sem vill fæðast. Þetta er þín ákvörðun og þín löngun.“
Sara heldur áfram og veltir fram spurningu: „Hvernig getur þú saknað þess sem þú hefur aldrei átt,“ spyr hún. „Það er ekki þar með sagt að hún verði alltaf sorgmædd þó hún eigi ekki pabba.“
„Munurinn á okkur sem hafa eignast barn með þessum hætti og þeim sem eiga barn og vita kannski ekki hver faðirinn er, er sá að hjá okkur er þetta skipulögð ákvörðun. Ég held að það sé helsti munurinn og það er kannski þess vegna sem þessu er tekið opnum örmum. Kannski er þetta ástæðan fyrir því að maður mætir ekki sömu fordómum og einstæðar mæður hafa jafnvel mætt í gegnum tíðina. Þetta er skipulagt,“ segir Sara
Sumar athugasemdir fólks hafa ef til vill átt að vera jákvæðar en Sara hefur ekki upplifað þær á sama hátt. „Það fer gífurlega í taugarnar á mér þegar fólk segir að ég sé dugleg, ég er bara að gera það sama og aðrir,“ segir hún.
Í dag virðist dóttir Söru ekki sakna þess að eiga föður. „Ég spyr hana, átt þú pabba,“ segir Sara „Nei, ég á mömmu,“ svarar dóttir hennar þá glaðhlakkanleg og skilur ekkert í mömmu sinni að spyrja svona kjánalegrar spurningar, bætir Sara við. Hún bendir á að það eigi þó eftir að koma í ljós hvað henni finnst í raun um þetta.
Aðspurð segist Sara alltaf hafa sagt að dóttir hennar eigi ekki pabba. Hún valdi aftur á móti að nýta sæði svokallaðs opins gjafa og því getur dóttir hennar nálgast upplýsingar um föður sinn þegar hún verður sjálfráða.
Sara gerir ráð fyrir að útskýra uppsetninguna og sæðisgjafann fyrir dóttur sinni þegar hún fer að spyrja hvernig börnin verða til. Hún hefur ekki áhyggjur af spurningunum og segist vera tilbúin með svör þegar að því kemur.
Mæðgurnar hafa ekki alltaf búið tvær saman. Frá því að stúlkan var nokkurra mánaða gömul hefur bróðir Söru leigt hjá henni. „Fjölskyldumynstrið er því í raun hefðbundið. Hún á tvö sett af ömmum og öfum og það er uppeldisfaðir, þó hann sé ekki pabbi,“ útskýrir Sara.
Dóttir Söru var á ungbarnaleikskóla til að byrja með. Þar hékk skilti með nöfnum barnanna, móður þeirra og föður. „Hjá henni stóð bara, mamma mín heitir Sara. Mér fannst asnalegt að hún fengi bara eitt nafn og bað um að þar stæði einnig nafn frænda hennar þannig að hún væri sem líkust hinum börnunum,“ segir Sara en lítið mál var að verða við þeirri kröfu á leikskólanum.
Konur sem eignast barn með sama hætti og Sara, þ.e. með tæknifrjóvgun án maka, fá níu mánuði í fæðingarorlof, þ.e. einnig þá þrjá mánuði sem makinn fengi annars. Þá fá þær einnig barnalífeyri frá Tryggingastofnun sem jafngildir meðlagi.
Sara gagnrýnir aftur á móti að hún hafi ekki fengið veikindadaga föðurs, heldur aðeins þá ellefu sem hvert foreldri fær. „Þarna fylgja löggjöfin og kjarasamningurinn ekki eftir,“ segir Sara.
Eins og kom fram hér að ofan leiddi Sara hugann að því að hún yrði ein með barnið áður en hún tók ákvörðun um að fara í tæknisæðingu.
„En þú ert aldrei ein með barnið þitt. Það hópast allir í kringum þig og vilja hjálpa þér. Ég hef aldrei verið ein með hana þó að ég sé einstæð móðir. Ef maður er í góðri fjölskyldu eru miklar líkur á því að þú fáir aðstoð. Mér líður ekki eins og ég sé ein,“ segir Sara.
Allar ábendingar um efni sem tengist málaflokknum eru vel þegnar en mbl.is mun halda áfram umfjöllum um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar.
Ábendingum er meðal annars hægt að koma á framfæri með því að senda tölvupóst á netfangið larahalla@mbl.is eða netfrett@mbl.is