Öllum starfsmönnum gamla þjónustuversins við ferðaþjónustu fatlaðra var sagt upp störfum þegar nýtt kerfi var sett á laggirnar um áramótin. Þrír af þessum starfsmönnum eru bundnir hjólastól, tveir eru konur, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Strætó hvatti starfsmennina til að sækja um á nýjum stað en aðeins einn sótti um nýtt starf en það var ekki í þjónustuverinu.
Þremenningarnir voru í hálfu starfi, höfðu unnið í þjónustuverinu í nokkur ár og líkaði mjög vel. Starfið hentaði þeim einnig enda voru þau sjálf notendur ferðaþjónustu fatlaðra og kunnu því betur en flestir á kerfið.
Konurnar voru allar í hálfu starfi en þol og annað kom í veg fyrir 100% vinnu. Til að fá vinnu á nýja staðnum hefðu konurnar þurft að vinna fullan vinnudag – nokkuð sem hentaði þeim ekki.
Samkvæmt svörum Strætó við fyrirspurn Morgunblaðsins var þetta sagt nauðsynleg aðgerð.
„Til að hægt væri að gera þær breytingar á þjónustunni sem þjónustulýsingin segir til um var óhjákvæmilegt að segja upp öllum starfsmönnum í ferðaþjónustu fatlaðra í Reykjavík. Hluti af þessum breytingum fólst í lengri þjónustutíma.
Rétt er að ítreka að allir starfsmenn ferðaþjónustunnar voru hvattir til að sækja um nýjar stöður í þjónustuveri og önnur störf hjá Strætó,“ segir meðal annars í svarinu.
Nýtt þjónustuver var tekið í notkun seint á árinu 2014 og margt nýtt fólk ráðið. Fyrir utan nýtt fólk í þjónustuverinu var nýja kerfið tekið upp og samið við nýja bílstjóra því umfangið jókst til muna frá því að Strætó yfirtók akstur í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins nema Kópavogi um áramót en Strætó hefur rekið akstursþjónustu fatlaðs fólks síðan 2001. Mikil óánægja er meðal fatlaðra með upphafskaflann að þessari nýju sameiningu enda hafa þeir oft verið sóttir seint eða alls ekki og það tekur oft langan tíma að koma þeim á áfangastað.
Mikið álag hefur verið á nýja þjónustuverinu og á föstudaginn bárust 710 símtöl í hið nýja kerfi. Fór strætó 1.122 ferðir og voru eknir 8.136 kílómetrar með farþega. Alls mætti farþegi ekki 29 sinnum þennan dag, ferð var afþökkuð á staðnum 15 sinnum og sex villuskráningar eru skráðar í hið nýja kerfi.
Ef farþegi ferðaþjónustunnar mætir ekki í fyrstu ferð dagsins og hefur ekki hringt eða sent póst til að afbóka falla allar ferðir hans niður. Þykir mörgum þetta ansi hörð aðgerð gagnvart fötluðum sem misst hafa af viðburðum, sjúkraþjálfun og jafnvel salernisferðum fyrir vikið. Í svari Strætó um hvort aðgerðin sé ekki svolítið hörð segir: „Þetta er gert til að draga úr fjölda ferða þar sem farþegi mætir ekki. Rétt er að ítreka að ef farþegi lætur vita að hann vilji halda öðrum ferðum inni, þrátt fyrir að mæta ekki í einstaka ferð án þess að afbóka, þá er það að sjálfsögðu ekkert mál. Þetta á eingöngu við ef farþegi hefur ekki samband.“