Trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir stjórnvöld ábyrg fyrir þeim áföllum sem dunið hafa yfir störf í sjávarútvegi undanfarin misseri. Landverkafólk hefur ekkert til saka unnið sem réttlætir að vera sett í nútíma vistarbönd kvótaeiganda.
Þetta kemur fram í ályktun sem trúnaðarráðið samþykkti á fundi sínum í gærkvöldi. Fram kemur á vef Verkalýðsfélags Vestfjarða, að á fundinum hafi staða atvinnumála á Flateyri og Þingeyri verið til umræðu. Þar voru fundarmenn ómyrkir í máli þegar staða sjávarbyggða var rædd. Flutningur veiðiheimilda, hreppaflutningar starfsfólks og nútíma vistarbönd hafi verið orð sem féllu á fundinum.
Ályktunin er svohljóðandi í heild:
„Trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir stjórnvöld ábyrg fyrir þeim áföllum sem dunið hafa yfir störf í sjávarútvegi undanfarin misseri. Landverkafólk hefur ekkert til saka unnið sem réttlætir að vera sett í nútíma vistarbönd kvótaeiganda.
Kvótaflutningar í bolfiski er byrtingarmynd hins frjálsa framsals aflaheimilda sem heggur enn á ný svo nærri vestfirskum byggðum að ekki verður við unað. Nýjustu dæmin eru boðaðar breytingar á bolfiskvinnsu á Flateyri og flutningur veiðiheimilda frá Þingeyri með lokun starfsstöðvar Vísis hf.. Fundurinn krefst þess að strax verði gerðar viðeigandi ráðstafanir til að Vestfirðingar geti betur nýtt gjöful fiskimið fjórðungsins með réttmætum hætti.
Fundurinn krefst áræðni og staðfestu í ákvarðanatöku svo tryggja megi að hjól atvinnulífs á Vestfjörðum stöðvist ekki. Komum í veg fyrir nýja öld lénsherra á Íslandi með tilheyrandi stéttaskiptingu. Ráðumst gegn atvinnu- og tekjumissi í Vestfirskum sjávarbyggðum með samstöðu okkar allra að vopni.“