Segir skekkju í hagvaxtartölum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að allt bendi til þess að skekkja sé í tölum Hagstofunnar um hagvöxt á fyrstu níu mánuðum ársins 2014. Þegar árið verði gert upp muni koma í ljós að hagvöxtur ársins var umtalsverður og að hann verði það einnig á árinu 2015.

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, bar hagvaxtartölur upp við Sigmund Davíð. Sagði Björn að í sögulegu samhengi hefði hagvaxtarbreyting aldrei orðið meiri á Íslandi - ef hrunsárið er tekið út - heldur en frá 1. ársfjórðungi 2013 og til loka árs 2014. Hagvöxtur mælist hálft prósent og viðvörunarbjöllur farnar að hringja.

Sigmundur Davíð sagðist þá geta glatt þingmanninn með því að benda á að það hafi komið fram að líklega sé skekkja í umræddum tölum sem muni leiðréttast þegar árið verði gert upp. Þá muni koma í ljós að umtalsverður hagvöxtur var á Íslandið árið 2014 og meiri en í flestum öðrum Evrópuríkjum. Áhyggjur af hagvexti á Íslandi séu því algjörlega óþarfar.

Björn Valur sagði ekkert hafa komið fram um það, að tölurnar verði leiðréttar. Þvert á móti hafi Hagstofan neitað því að leiðrétta þessar tölur og standi við þær. Það sýni að hagvöxtur sé langt undir spám og tíundi hluti þess sem Sigmundur Davíð taldi í stjórnarandstöðu að væri ásættanlegt.

Sigmundur Davíð sagði þá að ýmsir aðilar hefðu farið yfir gögnin og að öllum líkindum sé skekkja í tölunum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert