Tim Dodson, aðstoðarforstjóri Statoil, segir aðspurður að mikil lækkun olíuverðs gæti leitt til þess að hætt yrði við nýjar fjárfestingar á svæðum þar sem olíuleit er dýr.
Hann segir Statoil ekki hafa áhuga á Noregshluta Drekasvæðisins. Ummælin lét hann falla á fyrsta degi ráðstefnunnar Arctic Frontiers í Tromsö í gær, en verðhrunið á olíu var þar rauður þráður.
Spurður um það sjónarmið að olíuhrunið hafi gjörbreytt fýsileika olíuvinnslu á erfiðum svæðum við Noreg sagði Børge Brende, utanríkisráðherra Noregs, að mikil lækkun olíuverðs hefði margvíslegar afleiðingar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.