Svigrúm til að hækka laun

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag að svigrúm sé til að hækka laun í kjaraviðræðum. Menn verði hins vegar að komast út úr því að einblína á prósentur, enda ekki skynsamlegt að sama prósentuhækkun nái upp allan skalann. Frekar eigi að horfa til krónutöluhækkana.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Sigmund Davíð út í málið. Hann sagði það fagnaðarefni að tekist hefði að semja við lækna enda frumskylda að tryggja vinnufrið og virkni heilbrigðiskerfisins. Kjarasamningurinn veki hins vegar upp ýmsar spurningar. Hann sé umfram það sem gert er ráð fyrir í kjaraforsendum Seðlabankans fyrir komandi kjarasamninga og skapi væntingar, meðal annars hjá fjölmennum kvennastéttum eins og hjúkrunarfræðingum. Það sé stétt sem á völ á störfum erlendis og ljóst að sjúkrahús séu jafn gagnslaus án lækna og hjúkrunarfræðinga.

Sigmundur Davíð sagði að semja verði á þann hátt að það sé til þess fallið að treysta stöðugleikann og ná fram kaupmáttaraukningu og til þess sé svigrúm. En ekki sé skynsamlegt að einblína á prósentuhækkanir heldur krónutöluhækkanir.

Árni Páll sagði að ef beita á krónutöluhækkunum sé ljóst að lægst launuðu munu fá meira en meðaltekjufólk fá minna. Það hljóti að þýða að hjúkrunarfræðingar, sem teljist til meðaltekjufólks, eigi ekki von á kjarabótum.

Sigmundur Davíð sagði ekki rétt að hann boði það að meðaltekjufólk fái ekki kjarabætur. Það sé einmitt mikilvægt að bæta kjör meðaltekjufólks og þeirra með lægri tekjur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert