Þurfa stundum að hneyksla eða móðga

Víða um heim hefur árásinni á Charlie Hepto verið mótmælt …
Víða um heim hefur árásinni á Charlie Hepto verið mótmælt sem árás á tjáningarfrelsið. AFP

Stundum þurfa fjölmiðlar að hneyksla eða móðga. Þetta sagði Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, á hádegisfundi fjölmiðlanefndar og Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands í Háskóla Íslands í dag þar sem yfirskriftin var „Penninn eða sverðið – er málfrelsið í hættu?“

Sagði Elfa að yfirlýsingin „Je Suis Charlie“ sem endurómað hefur víða um heim gefi ekki til kynna að þeir sem halda henni á lofti séu hlynntir því sem sagt var heldur réttinum til þess að segja það. „Höfum í huga að tjáningarfrelsi er ekki alltaf sjálfsögð mannréttindi.

Meirihluti mannskyns býr við skert tjáningarfrelsi og þar með mannréttindi,“ sagði Elfa og  benti á Kína og Rússland máli sínu til stuðnings. Hún bætti við að þau réttindi sem íbúum vestrænna landa þættu svo sjálfsögð hefðu aðeins áunnist fyrir um 100 árum síðan.

Elfa sagði einnig mikilvægt að líta sér nær í þessu samhengi þar sem deilt er um áhrif eigenda eða fjársterkra aðila á fréttaflutninginn og skorið er niður til ríkisfjölmiðla. „Blaðamenn búa margir hverjir við svo mikla óvissu í starfi sínu að þeir eiga á hættu að vera sagt upp hvenær sem er, við slíkar aðstæður er hætta á sjálfsritskoðun,“ sagði Elfa.

„Sannleikurinn er nefnilega sá að við stöndum reglulega frammi fyrir stærri eða minni hindrunum sem geta haft áhrif á tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla. Við þessar aðstæður stöndum við sjaldnast upp og segjum: Ég er Charlie, til varnar tjáningarfrelsinu.“

Minnti Elfa á að Vesturlandabúar séu í raun ekki ávallt samkvæmir sjálfum sér þegar kemur að umræðu um sverðið og pennann því fyrir 16 árum varpaði NATO sprengjum á serbneska ríkisfjölmiðilinn og 16 manns létu lífið.

Elfa velti því upp hvort Múhameðsmyndirnar væru frekar átylla en orsakavaldur árásanna og því aukaatriði í stóra samhenginu. Þá benti hún á að hryðjuverk væru hvorki ný af nálinni né stór hernaðarleg ógn í hinum vestrænu ríkjum

„Það deyja margfalt fleiri af völdum umferðarslysa, reykinga eða velmegunarsjúkdóma á vesturlöndum en af völdum hryðjuverka en það er óttinn sem grimmdin skapar sem er hættuleg okkar samfélagi.“

Óskýrar línur milli trúar og menningar

Sagnfræðingurinn Þórir Jónsson Hraundal sagði eftirmála árásinnar á franska fjölmiðilinn Charlie Hepto vera þungt en nauðsynlegt skref. Sagði Þórir ekki hægt að líta á háð Vesturlanda í garð Íslam án samhengis enda væru Múhameðsteikningar á við þær sem Charlie Hepto birti mun gildishlaðnari frá sjónarhóli múslima.

„Það er gríðarlega erfitt og flókið mál að gera skýrar línur milli trúarbragða og menningar, þú ert ekki bara að gera grín að táknmynd heldur öllu sem þessi táknmynd stendur fyrir. Islam er ákaflega mikið samofin samfélögunum og gegnsýrir alla menningu,“ sagði Þórir.

Benti hann jafnframt á að beina tengingu mætti finna milli uppruna öfgasamtaka á við Al Qaeda og Ríkis Íslams og aðgerða Bandaríkjanna í arabaheiminum, t.a.m. stríðsins gegn hryðjuverkum.

Þá minnti Þórir á að þrátt fyrir að hinn vestræni heimur tali um nauðsyn þess að vernda tjáningarfrelsið sé það ekki algjört í raun enda séu til lög um meiðyrði og að einskonar samkomulag ríki innan samfélagsins um að nota ekki ákveðin orð sem eru særandi fyrir einstaklinga eða hópa.

Klám og skopmyndir undir sama hatt?

Róbert H Haraldsson, prófessor í heimsspeki við Háskóla Íslands, tók síðastur til máls og varpaði m.a. fram þeirri spurningu hver staða kvenna og samkynhneigrða væri í dag ef aldrei hefði mátt raska ró trúaðra. Sagði hann að móðgandi efni eitt og sér gæti aldrei réttlætt málfrelsisskerðingu heldur einungis ofbeldisfull tjáning efnisins.

„Við getum hvorki notað hefðbundin málfrelsisrök né hefðbundna móðgunarreglu til að amast við múhameðsteikningunum. Til að amast við þeim þurfum við að mínum dómi að gera miklu róttækari atlögu að málfrelsinu og frjálslyndum gildum.“

Sagði hann ljóst að róttækir feministar hefðu komið auga á þessi sannindi. „Skotmark róttækra feminista er raunar oftast klám en ekki skopmyndir, en í baráttu sinni gegn klámi hafa þeir skipulega hafnað sumum af þeim lykiltilhneigingum sem mynda hefðbundin málfrelsisrök. Þeir hafa hafnað afgerandi greinarmun á hugsun og orðum,“ sagði Róbert.

Sagði hann róttæka feminista meta það sem svo að áhersla á málfrelsi hafi alið á ójöfnuði og hatursumræðu. „Ég efast á hinn bóginn um að þetta sé heillavænleg leið,“

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar.
Þórir Jónsson Hraundal, sagnfræðingur.
Þórir Jónsson Hraundal, sagnfræðingur.
Robert H haraldsson, prófessor í heimspeki.
Robert H haraldsson, prófessor í heimspeki. mbl.is/ Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert