Tillaga um slit innan fárra daga

Fjármálaráðherra sagðist á Alþingi í dag gera ráð fyrir að tillaga utanríkisráðherra um slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði lögð fram innan fárra daga. Hann kallaði jafnframt eftir efnislegri umræðu um það hvað það þýði fyrir Ísland að ganga í Evrópusambandið.

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, um tillögu Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, þess efnis að kalla beri aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka.

Guðmundur minnti Bjarna á það hversu mikilli andstöðu tillagan mætti þegar hún var lögð fram í fyrra og sagðist hann hafa vonað að þingheimur allur og þjóðin hafi dregið þann lærdóm af þeirri rimmu, að þessu mikla deilumáli þurfi að leiða til lykta með uppbyggilegri hætti.

Bjarni sagði of mikið gert úr stöðu Íslands í aðildarviðræðunum. „Hverju myndi það skipta að fá þá niðurstöðu að ekki ætti að slíta viðræðum eða að ríkisstjórnin taki þá ákvörðun að fara ekki í viðræðuslit þegar fyrir liggur að hún ætlar ekki að standa í viðræðum?“

Hann sagði þetta formsatriði enda sé Ísland ekki í aðildarfasa, ekki í viðræðum. Og ef það fáist meirihluti fyrir aðild að ESB í framtíðinni sé hægt að sækja um að nýju og ljúka viðræðum á einu kjörtímabili.

Guðmundur vísaði í stjórnarsáttmálann þar sem segir að hlé verði gert á aðildarviðræðum við ESB. Þar komi hins vegar ekki fram að slíta beri viðræðunum. Þá hafi stjórnarflokkarnir ekki greint frá því í kosningabaráttunni að þeir hygðust gera það. Sökum þessa hafi stjórnarflokkarnir ekki umboð til að slíta viðræðunum og þurfi til þess að sækja sér umboð með alþingiskosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert