Tíu þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að ríkisstjórninni verði falið „að skipa nefnd um lýðræðisleg ákvarðanaferli með beinni þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Markmiðið með vinnu nefndarinnar verði að auka þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum í samræmi við hugmyndir um þátttökulýðræði.“
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, er fyrsti flutningsmaður tillögunnar en í greinargerð segir að markmið hennar sé „að auka lýðræðislega aðkomu og þátttöku almennings í opinberri stefnumótun. Á undanförnum árum og áratugum hafa miklar hræringar átt sér stað – í stjórnmálum, meðal almennings, og innan fræðasamfélagsins – hvað varðar leiðir til að auka lýðræðislega þátttöku og aðkomu almennings að opinberum ákvörðunum. Þessar hræringar hafa ekki síst átt sér stað hér á landi í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, en eiga sér þó ýmis fordæmi í öðrum löndum eins og nánar verður rakið hér á eftir.“