Vinnubrögð Isavia varðandi vinnu við gerð áhættumats vegna fyrirhugaðrar lokunar á flugbraut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli benda til þess að stofnunin sé að vinna gegn hagsmunaaðilum og að ferðinni sé stýrt af flugvallarandstæðingum. Þetta segir Þorkell Ásgeir Jóhannesson hjá flugfélaginu Mýflugi, en hann sat ásamt fleirum í vinnuhópi um þau mál sem Isavia leysti upp fyrir jól áður en hópurinn hafði komist að formlegri niðurstöðu eins og mbl.is fjallaði um í dag. Hópurinn skilaði greinargerð til innanríkisráðuneytisins í kjölfarið.
„Forstjóri Isavia sendi frá sér skýrslu fyrir rúmu ári síðan sem gengur í berhögg við reglur um útreikninga á nothæfisstuðli. Hann skautar beinlínis framhjá bæði íslenskum og alþjóðlegum reglum um það hvernig eigi að reikna út nothæfisstuðul. Það getur hann ekki hafa gert nema vegna þess að hann hefur viljað ná einhverri ákveðinni niðurstöðu,“ segir hann. Ekki verði ennfremur annað séð en að skýrslur sem unnar hafi verið af verkfræðistofunni Eflu í kjölfarið hafi verið ætlað að réttlæta skýrslu Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia. Eitt af því sem bendi til þess séu viðbrögðin við óskum um að sjá þau gögn sem skýrslurnar væru byggðar á. Fulltrúi Isavia hafi í því sambandi bent fulltrúum í vinnuhópnum að óska eftir gögnunum á grundvelli upplýsingalaga og síðan leyst hópinn upp áður en hann hafði skilað formlegum niðurstöðum um áhættumat fyrir Reykjavíkurflugvöll.
Gripið inn í öryggismál flugvallarins
„Þarna vorum við sem vinnuhópur, áhættumatsnefndin, vorum vinnuhópur á vegum Isavia og áttum að sjálfsögðu að eiga skilyrðislausan aðgang að þessum frumgögnum en því var hafnað,“ segir Þorkell. „Að mínu viti er öll þessi nálgun Isavia með þeim hætti að þarna er beinlínis gripið inn í öryggismál flugvallarins með þeim hætti að það er útilokað að sætta sig við það.“ Einnig sé merkilegt að Reykjavíkurborg hafi kosið að nota umrædda skýrslu forstjóra Isavia, þar sem forsendur virðist beinlínis skáldaðar til þess að ná ákveðinni niðurstöðu, og síðan skýrslur Eflu, sem virðist hugsaðar til þess að réttlæta skýrslu forstjórans, til þess að byggja á ákvarðanir í skipulagsmálum sem gangi út á að þrengja að Reykjavíkurflugvelli.
Þrátt fyrir að áhættumat liggi ekki fyrir um Reykjavíkurflugvöll haldi Reykjavíkurborg þannig áfram að skipuleggja svæðið segir Þorkell. Það sé andstætt lögum. Þarna séu á heildina litið í besta falli á ferðinni óvönduð vinnubrögð en í versta falli inngrip í öryggismál flugvallarins sem séu óásættanleg. Hálfdán Ingólfsson, öryggismálastjóri flugfélagsins Ernir, átti einnig sæti í vinnuhópnum og tekur undir gagnrýnina á vinnubrögð Isavia. „Þessi skýrsla er í besta falli tortryggileg, í versta falli bara bein fölsun,“ segir hann um skýrslu forstjóra stofnunarinnar.
„Það er nokkuð ljóst að flugöryggisþátturinn er ekki þungavigtarþáttur í þessu máli,“ segir hann. Önnur sjónarmið virðist vega þyngra líkt og sókn í landið sem Reykjavíkurflugvöllur er á undir fasteignir.
Frétt mbl.is: Hópurinn leystur upp fyrirvaralaust