Yngstu einhleypu konurnar 24 ára

Árangur af tæknisæðingum er meiri hjá einhleypum konum og lesbískum …
Árangur af tæknisæðingum er meiri hjá einhleypum konum og lesbískum pörum sem leita til Art Medica en gagnkynhneigðum pörum AFP

Yngstu einhleypu konurnar sem komið hafa í tæknisæðingu hjá læknastöðinni og tæknifrjóvgunarstofunni Art Medica voru í kringum 24 ára aldur þegar þær gengust undir meðferðina. Tæknisæðingar eru gerðar þar til konur hafa náð 45 ár aldri en glasafrjóvganir til 43 ára aldurs.  

Misjafnt er hversu margar tæknisæðingar þarf að gera áður en lífið kviknar hjá konunum en þó er algengt að þrjár til fimm tilraunir þurfi til. Árangur af tæknisæðingum er meiri hjá einhleypum konum og lesbískum pörum sem leita til Art Medica en gagnkynhneigðum pörum þar sem þær hafa yfirleitt ekki reynt að verða þungaðar í gangkynhneigðum samböndum

mbl.is ræddi við Þórð Óskarsson, lækni og einn af eigendum Art Medica, í tengslum við umfjöllun um málefni kvenna hér á landi sem hafa ákveðið að eignast barn einar með tæknifrjóvgun eða ættleiðingu.

Styttist í fertugt og frjósemin farin að minnka

Þórður segir að einhleypu konurnar sem koma í tæknifrjóvgun eða glasameðferð séu oft vel menntaðar konur sem hafa komist langt á sinni framabraut en beðið með að eignast barn eða börn.

„Þegar maður er 32 ára finnst manni maður enn vera ungur. Allt í einu er maður orðinn 37 eða 38 ára og þá fer að styttast í fertugt og frjósemin farin að minnka. Þá hrökkva konurnar við og fara að velta þessu fyrir sér,“ segir Þórður.

„Margar einhleypar konur hugsa eflaust að þær vilji hitta draumaprinsinn. Þær myndu kannski helst kjósa að vera með maka sem væri með þeim í þessu ferli. Þegar þær eru um fertugt þarf aftur á móti að fara að hafa hröð handtök. Þá er kannski ekki mjög einfalt að rjúka til og finna sér maka í hvelli.“

Á aldrinum 40 ára til 45 ára hrapar frjósemin niður hjá konum og lítið er um þunganir hjá þeim eftir 45 ára aldur. Því hafa tæknisæðingar verið gerðar hjá hjá konum fram til 44 ára eða 45 ára aldurs hjá Art Medica en glasafrjóvganir eru ekki gerðar eftir 43 ára aldur.

Sumar koma aftur á móti miklu fyrr en yngstu konurnar sem komið hafa til Art Medica voru í kringum 24 ára aldur þegar þær gengust undir meðferðina.

Reyna að minnsta kosti þrisvar til fimm sinnum

Afar misjafnt er hversu margar tæknisæðingar þarf að gera áður en konan verður ófrísk. Þórður bendir á að oftast þurfi að gera að minnsta kosti þrjár til fimm tilraunir, jafnvel fleiri. „Ef við miðum við gagnkynhneigt par þá er það venjulega búið að reyna í eitt ár sjálf áður en þau koma til okkar, stundum lengur,“ segir Þórður.

Þegar um einhleypar konur er að ræða eru aftur á móti ekki gerðar tæknisæðingar yfir svo langt tímabil án þess að gera frekari rannsóknir. Það er meðal annars vegna kostnaðar við tæknisæðingarnar en hann getur orðið verulegur ef gera þarf margar tilraunir.

Árangur af tæknisæðingum er eðli málsins samkvæmt meiri hjá einhleypum konum og lesbískum pörum þar sem þær hafa ekki verið að reyna að verða þungaðar í gangkynhneigðum samböndum, segir Þórður.

Líkurnar á þungun í þessum hópi eru meiri en hjá pörum þar sem búið er að reyna þungun heima við og ekki hefur fundist skýring á ástæðu þess að ekki gengur að búa til barn.  

Dýrara sæði af gjafinn er „þekktur“

Gjafasæði kostar á bilinu 37 þúsund til 50 þúsund og tæknisæðingarmeðferðin 52 þúsund krónur. Ef gjafinn er þekktur, þ.e. ef barnið getur fengið upplýsingar um hann þegar það verður sjálfráða, er sýnið dýrara.

Ef miðað er við þrjár til fimm tilraunir getur konan þurft að greiða í kringum hálfa milljón áður en hún verður ófrísk. Stundum gengur meðferðin þó upp í fyrstu tilraun og þá er kostnaðurinn í kringum 100 þúsund krónur.

Í upphafi glasafrjóvgunarmeðferðar er greitt 20% af meðferðargjaldi og 80% í lok meðferðarinnar. Vilji kona geyma sæði sem hún hefur keypt svo hún hafi möguleika á að nýta sæði frá sama gjafa ef hún vill gera tilraun til að verða þunguð á ný seinna, getur hún geymt sæðið í tíu ár. Fyrir hvert ár sem hún lætur geyma sæðið greiðir hún 20 þúsund krónur.

All­ar ábend­ing­ar um efni sem teng­ist mála­flokkn­um eru vel þegn­ar en mbl.is mun halda áfram umfjöllun um málefni kvenna sem hafa ákveðið að eignast barn einar með aðstoð tæknifrjóvgunar eða ættleiðingar næstu daga.

Ábendingum er meðal ann­ars hægt að koma á fram­færi með því að senda tölvu­póst á net­fangið lara­halla@mbl.is eða net­frett@mbl.is 

Þórður Óskarsson, læknir hjá Art Medica.
Þórður Óskarsson, læknir hjá Art Medica. Ómar Óskarsson
Á aldrinum 40 ára til 45 ára hrapar frjósemin niður …
Á aldrinum 40 ára til 45 ára hrapar frjósemin niður hjá konum og lítið er um þunganir hjá þeim eftir 45 ára aldur mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert