Landvernd gerir alvarlegar athugasemdir við erindi Orkustofnunar til verkefnisstjórnar rammaáætlunar um virkjanamál. Orkustofnun sendi í gær verkefnisstjórninni fjölmargar virkjanahugmyndir til umfjöllunar þar á meðal hugmyndir sem eru í núverandi verndarflokki rammaáætlunar.
„Þess utan er ein hugmyndanna Hveravellir, einn fjölfarnasti áningarstaður ferðamanna á miðhálendinu sem nýtur friðlýsingar og á ekkert erindi inn í rammaáætlun, segir í fréttatilkynningu frá Landvernd.
Landvernd telur Orkustofnun „vega stórlega að friði um rammaáætlun“ og “hvetur verkefnisstjórn rammaáætlunar til að taka ekki þær virkjanahugmyndir sem eru í núgildandi verndarflokki áætlunarinnar til umfjöllunar, enda einungis tvö ár síðan þær voru flokkaðar í vernd. Þannig standi verkefnisstjórn vörð um það mikilvæga ferli sem felst í rammaáætlun og Orkustofnun gerir nú alvarlega atlögu að.“
Meðal þeirra virkjanahugmynda í verndarflokki sem Orkustofnun leggur nú fyrir verkefnisstjórnina eru Norðlingaölduveita við Þjórsárver, virkjanir í Jökulsá á Fjöllum, miðlunarlón í Tungnaá (Tungnaárlón), Markarfljót og ein virkjanahugmyndanna í Hólmsá.