„Þetta er hættuleg braut sem við erum á“

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert

„Misskipting auðs er mesta ógn við velferð og lýðræði í heiminum. Ríkasti hluti veraldarinnar verður sífellt ríkari á kostnað hinna, líka hér á Íslandi,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. 

Hann sagði í umræðum um störf þingsins, að undanförnum áratug hafi ríkasti hluti Íslendinga verið að eignast enn stærri hluta af kökunni en hann átti fyrir.

„Það er nú þannig að eitt prósent Íslendinga á 23% af eignunum í landinu meðan 75%, eða 3/4 hlutar framteljenda, eiga 27% eða rétt um það bil svipaðan hlut af kökunni og ríkasta eitt prósentið. Það versta er að það Alþingi sem nú situr, meirihlutinn á Alþingi hefur ekkert gert annað en að auka á þessa misskiptingu,“ sagði Helgi.

Hann bætti við, að allar aðgerðir stjórnarmeirihlutans hefðu markvisst miðað að því að lækka skatta á ríkasta eitt prósentið en auka byrðar þeirra sem væru neðst settir. Þannig hefði hann sérstaklega létt auðlegðarskatti af ríkustu sex þúsund heimilunum í landinu, ríkustu þremur prósentunum sem nú þyrftu ekki lengur að leggja til eina 11 milljarða á ári til samneyslunnar.

„Meirihlutinn boðar núna að afnema hátekjuskattinn og hygla þannig enn og aftur ríkasta hluta Íslendinga, hann hefur hækkað matarskattinn á lægst launuðu hópana um leið og hann hefur aflétt vörugjöldunum á flatskjána og nuddpottana sem kemur auðvitað þeim best sem efnaðastir eru. Þetta er hættuleg braut sem við erum á og við verðum að snúa af henni vegna þess að þessi misskipting ógnar bæði hagvextinum, velferðinni í landinu og lýðræði í okkar heimshluta,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert