Nær sanni er að samfélaginu stafi ógn af þeim sem ala á ótta, fordómum og fáfræði en innflytjendum, fjölmenningu eða fólki af ólíkum trúarbrögðum. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, á þingi í dag. „Við erum öll eitt Íslendingar,“ sagði Steingrímur.
Þingmaðurinn kvaddi sér hljóðs undir liðnum störf þingsins og vakti athygli á grein Semu Erlu Serdar, stjórnmála- og Evrópufræðings, sem birtist á Vísi í dag. Þar fjallar hún um uppgang öfgaflokka í Evrópu sem ala á þjóðernishyggju, innflytjendaandúð og andúð á fjölmenningarsamfélaginu. Þessum sömu öfgaöflum vaxi ásmegin hér á landi.
Steingrímur sagði að þar væru orð í tíma töluð. Ástæða væri til að spyrja hvort fólki stafaði frekar ógn af innflytjendum, fjölbreytni, fjölmenningarsamfélagi eða fólki af ólíkum trúarbrögðum en þeim sem ala á ótta, fordómum og fáfræði og skapa spennu í samfélaginu á þeim forsendum. „Það held ég að sé sönnu nær“ sagði hann.
„Við erum öll Íslendingar sem höfum valið að búa í þessu landi, óháð því hvort að við höfum flutt hingað nýlega, foreldrar okkar, afar eða ömmur gerðu það eða forfeður fyrir 1.000-1.100 árum. Það eru engin við og hin í þessari umræðu,“ sagði Steingrímur.
Tímabært væri af nýlegum og sorglegum tilefnum að Alþingi sendi skýr skilaboð um að við ætlum ekki að líða umræðu eða framgöngu sem byggist á þessum forsendum.
„Það er algerlega ömurlegt ef menn ætla að róa á þessi mið og gera út á andúð og fordóma og ótta í garð tiltekinna hópa í okkar samfélagi. Við erum öll eitt Íslendingar,“ sagði Steingrímur.