„Þarna voru hundruð dauðra svartfugla, ég veit ekki hvað mörg. Það voru örfáir metrar á milli hræjanna á 1-2 km kafla,“ sagði Gunnar Óli Hákonarson, bóndi á Sandi í Aðaldal. Hann fór ásamt Vilhjálmi Jónassyni á Sílalæk í árlega vetrarfuglatalningu um áramótin. Þeir fóru á Sjávarsand við botn Skjálfandaflóa. Dauðu fuglarnir voru skammt austan óss Skjálfandafljóts.
„Uppistaðan í þessu var haftyrðill, svo var talsvert af langvíu. Þarna var veisla, mikið af hrafni og svartbak komið í þetta og rebbi var líka mættur,“ sagði Gunnar Óli. Dauðu fuglarnir voru ekkert annað en skinn og bein og hafði hungrið líklega borið þá ofurliði. Hann taldi að sú skýring væri líklegust að órannsökuðu máli. Gunnar Óli ók með ströndinni alveg austur að Laxá í Aðaldal en varð ekki var við jafn marga dauða fugla þar.
„Maður sér alltaf eitthvað af dauðum fuglum, en ég hef aldrei séð neitt líkt þessu. Ég hef heldur aldrei talið jafn mikið af hrafni á þessu svæði í vetrarfuglatalningu og nú. Þeir voru sextán en oftast sér maður ekki neinn eða einn til tvo.“ Gunnar Óli sagði að í desember s.l. hefðu verið mjög þrálát vestan- og norðvestanrok á þessum slóðum og fuglarnir líklega ekki haft neitt æti.
Böðvar Þórisson, starfandi forstöðumaður Náttúrustofu Vestfjarða, sagði að tilkynnt hefði verið um svartfugladauða í Ísafirði við Ísafjarðardjúp fyrr í þessum mánuði. Hann sagði að mikið hefði verið um svartfugl í fjörðunum upp á síðkastið, bæði langvíu og haftyrðil. Svartfugladauðinn nú virtist þó vera lítill í samanburði við fellinn sem varð fyrir hátt í tíu árum.
„Garðfuglarnir okkar hér í Stykkishólmi nú eru máfar,“ sagði Árni Ásgeirsson, líffræðingur við Háskólasetrið í Stykkishólmi. Máfar eru farnir að sækja í fóður sem borið er út fyrir smáfugla. Árni sagði þetta vera ólíkt því sem menn ættu að venjast.
„Sjómenn segja að máfarnir séu mjög aðgangsharðir við að ná sér í beitu þegar verið er að leggja línu. Svo virðist sem lítið æti sé fyrir máfana. Ef til vill eru of margir máfar á svæðinu vegna þess hvernig ástandið var í Kolgrafafirði.“
Róbert sagði að ráða mætti af atferli máfanna að þá skorti æti. Hann sagði að hafnarvörður í Stykkishólmi hefði orðið var við máttfarna máfa á bryggjunni sem virtust vera við það að drepast. Reynt hefur verið að gefa þeim og jafnvel taka þá á hús.
„Þeir virðast stöðugt vera í ætisleit, fljúga yfir bænum og koma í garða ef fólk kastar einhverju út. Það er óvenjulegt og gæti bent til þess að það sé minna að hafa í náttúrunni en venjulega,“ sagði Róbert.