Hildur Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir það að borgarstjóri og fleiri í meirihluta borgarstjórnar hafi setið hjá er Gústaf Níelsson var kjörinn varafulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í Mannréttindaráð á facebooksíðu sinni. „Það var eiginlega því miður smá popúlískt og vanhugsað múv,“ segir Hildur í færslu sinni.
„Það voru þarna nokkrir í meirihlutanum sem sátu óvænt hjá í þessari ákveðnu skipun, en það er áralöng, jafnvel áratugalöng hefð fyrir því að svona skipanir flokka í ráð og nefndir séu samþykktar samhljóða,“ segir Hildur í samtali við mbl.is aðspurð um skoðun sína á málinu.
„Annað væri bara mjög óheppilegt því þá gæti til dæmis meirihluti farið að vasast í því hverjir væru skipaðir í ráð og nefndir minnihlutans.“
Hildur furðar sig á því að það sé yfir höfuð verið að kjósa um þessi mál en bætir við að með því að sitja hjá hafi meirihlutinn sett slæmt fordæmi. „Það er hálfskringilegt að það sé kosið um þetta í stað þess að flokkarnir skipi bara sína fulltrúa og beri á þeim þá pólitíska ábyrgð gagnvart almenningi og sínum kjósendum. Það er eini öryggisventillinn sem við höfum á ákvarðanir ráðamanna,“ segir Hildur. „Þess vegna er ég með áhyggjur af þessu fordæmi sem var sett upp úr þurru og án þess að einhver hafi áttað sig á því.“
Að sögn Hildar sést það ekki í fundardagskrá hverjir viðkomandi fulltrúar flokkanna eru og segir hún það skipta miklu máli.
„Eina sem stendur í fundardagskrá er „Kosning í mannréttindaráð“ en svo eru það forseti borgarstjórnar og borgarstjóri sem hafa aðgang að upplýsingum sem aðrir hafa ekki. Þar af leiðandi fengu þeir svigrúm til þess að bregðast við þar sem þessi kosning á sér yfirleitt stað á þremur sekúndum eða svo,“ segir Hildur.
Hún segir mikilvægt að ábyrgðin sé hjá Framsóknarflokknum og flugvallarvinum í þessu máli. Er hún þó hugsi yfir því að þau Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, hafi setið hjá. „Þó að það sé hægt að bera virðingu fyrir því að fólk vildi ekki samþykkja þessa tilteknu kosningu. Ég hef oft ekki verið sérstaklega hrifin af þeim fulltrúum sem kjörnir eru, en það verður bara að vera aukaatriði í þessu máli,“ segir Hildur.
„Ég er hrædd við þetta fordæmi sem var sett og ég skil ekki alveg hvaða tilgangi það þjónar að dreifa ábyrgðinni frá Framsókn sem á að bera hana.“