Gætu sparað ríkinu hundruð milljóna

Skúli Mogensen, eigandi WOW air.
Skúli Mogensen, eigandi WOW air. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Flugfélagið WOW air skoðar nú lagalega stöðu sína varðandi farmiðakaup ríkisins í millilandaflugi. Eins og fram kom í Kastljósi á mánudag er kostnaður ríkisins vegna farmiðakaupa um 900 milljónir króna á ári, en enginn samningur hefur verið gerður um slíkt, og var síðasta útboð gert árið 2012.

Skúli Mogensen, eigandi WOW air, skrifaði á Facebook-síðu sína á þriðjudag að það væri mjög gott og löngu tímabært að fá málið upp á yfirborðið. „WOW gæti hæglega sparað ríkinu, borginni og opinberum fyrirtækjum fleiri hundruð milljóna á ári!“ skrifaði hann.

Mögulega lögbrot að sniðganga útboð

Í Kastjósi á mánudag kom fram að opinberir starfsmenn og aðrir sem ferðast á kostnað ríkisins hafi persónulegan ávinning af því að verslað sé við tiltekið fyrirtæki, en slíkt sé óeðlilegt og bendi ekki til þess að hagsmunir skattgreiðenda séu í öndvegi. Er þar bent á það að starfsmennirnir sjálfir ráði hjá hvaða flugfélagi þeir bóki far og flestir geri það hjá Icelandair þar sem þeir fá vildarpunkta. Þannig fái til dæmis opinber starfsmaður sem fer til Danmerkur einu sinni í mánuði, mögulega frítt far til London og til baka á ári, vegna vildarpunkta.

Páll Rúnar Kristjánsson, lögmaður WOW, segir það í skoðun nú hvort mögulega hafi verið brotin lög með því að bjóða ekki farmiðana út síðustu ár. „Það er núna í skoðun hvort það hafi ekki verið lögboðin útboðsskylda og hvort það felist lögbrot í þessari sniðgöngu á henni. Ef það hefur verið farið á svif við lög þá skoðar félagið rétt sinn og þau úrræði sem standa til boða.“

Furðulegt að ríkið hagi viðskiptum sínum á þennan hátt

Þá kom fram í Kastljósi að ítrekaðar tilraunir til að bjóða út farmiðakaup ríkisins hafi runnið út í sandinn árið 2012, en þá hafi tvö útboð verið úrskurðuð ógild. Árið 2011 tók ríkið tilboðum frá bæði Icelandair og Iceland Express, þrátt fyrir að tilboð Iceland Express hafi verið mun hagstæðara samkvæmt Kærunefnd útboðsmála.

Páll segir það blasa við að hægt sé að spara hundruð milljóna á ári, og því sæti það furðu að ríkið skuli velja að haga viðskiptum sínum á þennan hátt. „Það er venjulega þannig þegar þú nálgast viðskiptavin og segir honum að þú getir sparað honum hundruð milljóna, þá taki hann þér fagnandi. Svo er ekki í tilfelli ríkisins.“

Þá bendir hann á niðurstöðu kærunefndar útboðsmála í máli 12/2012, þegar nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Ríkiskaup höfðu brotið gegn lögum um opinber innkaup þegar tilboði Icelandair í útboði um flugsæti til og frá Íslandi í mars árinu áður var tekið, þrátt fyrir það að tilboðið hefði verið mun óhagstæðara en tilboð Iceland Express. Ríkið var skaðabótaskylt gagnvart Iceland Express en kærunefndin féllst ekki á að ógilda eða endurtaka útboðið þar sem lög heimiluðu það ekki.

Að sögn Páls er WOW boðið og búið til að selja íslenska ríkinu og opinberum stofnunum þjónustu sína.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert