Harma ástandið í Hagaskóla

Hagaskóli, Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki …
Hagaskóli, Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Friðrik Tryggvason

Stjórn Foreldrafélags Hagaskóla harmar það ástand sem komið er upp í skólanum en mikil umræða hefur verið um ógnanir og hótanir í garð nemenda skólans. Stjórnin beinir þeim tilmælum til borgaryfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og ráðherra skólamála að taka málið föstum tökum.

Í yfirlýsingu sem Stjórn Foreldrafélags Hagaskóla sendi frá sér er harmað það ástand sem komið er upp í skólanum og það fjaðrafok sem orðið hefur í fjölmiðlum undanfarna daga. Hún segir alvarleg atvik hafa vissulega átt sér stað, en stjórnendur skólans, félagsmálayfirvöld, barnaverndaryfirvöld og lögreglan hafi tekið á þeim af röggsemi og festu og njóta fulls trausts stjórnar foreldrafélagsins til að sinna þeim málum áfram. Fundir hafi verið haldnir með foreldrum í skólanum og þeim gerð grein fyrir þróun mála og þeim úrræðum sem skólayfirvöld hafa yfir að ráða og hafa gripið til.

Stjórn Foreldrafélags Hagaskóla hvetur fjölmiðla til að sýna stillingu og reyna eftir fremsta megni að gera ekki meira úr málinu en efni standa til vegna alvarleika málsins bæði gagnvart gerendum og þolendum. Hún áréttar að Hagaskóli er langt í frá eini skólinn sem á við vanda að stríða þó athygli hafi nú beinst að þeim skóla umfram aðra.

„Stjórnin beinir einnig tilmælum til borgaryfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og ráðherra skólamála að taka málið föstum tökum og leita leiða til að skólar landsins hafi í einhver hús að venda þegar vandamál sem þessi steðja að,“ segir í yfirlýsingunni.

Fyrri frétt mbl.is: Þurfa úrræði fyrir grunnskólanema með fíknivanda

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert