Tilgangslítið að dýpka Landeyjahöfn

Landeyjahöfn.
Landeyjahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Dýpi í Landeyjahöfn er svipað í vetur og verið hefur seinustu vetur. Tilgangslítið væri að dýpka höfnina því vegna ölduhæðar í vetrarveðrum gæti Herjólfur sjaldan siglt til Landeyjahafnar auk þess sem nær ógjörningur yrði að viðhalda dýpinu við vetraraðstæður. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Í tilkynningu sem birtist á vefsíðu Vegagerðarinnar í dag vegna umfjöllunar um að aldrei hafi verið meiri sandur í Landeyjahöfn áréttar Vegagerðin að mælingar sýni að magnið af sandi sem truflar siglingar í Landeyjahöfn sé nú svipað því sem verið hefur seinustu ár. Meiri sandur sé í hafnarmynninu og á rifinu en í fyrra en minna innan hafnar og í heild sé magnið minna en í fyrra sem þarf til að ná nægu dýpi fyrir Herjólf. Dýpið núna á rifinu sé ekki ósvipað og árið 2012 en meira en árin 2013 og 2014. 

Athygli er jafnframt vakin á því að til lítils sé að reyna að halda fullu dýpi fyrir núverandi Herjólf eins og málum er nú háttað. Þar valdi tvennt. Annarsvegar að nánast ógjörningur er að það takist að viðhalda nægjanlegu dýpi fyrir núverandi skip við erfiðustu vetraraðstæður og hins vegar að jafnvel þótt það væri hægt þá ræður skipið ekki við siglingar í meira en 2,5 m ölduhæð. Siglingar núverandi Herjólfs féllu því niður flesta daga jafnvel þótt dýpi væri meira.

„Það er alveg ljóst að sandburður í og við höfnina var vanmetinn. Verkefnið við halda nægu dýpi í höfninni er því bæði krefjandi og vandasamt,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Tilkynningin á vef Vegagerðarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert