Umhverfisráðherraskipti til að koma málinu í gegn?

Birgitta Jónsdóttir
Birgitta Jónsdóttir Ómar Óskarsson

Árni Páll Árnason sagði í Alþingi í morgun í ljósi þess að Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar lagði munnlega til breytingu á rammaáætlun að eðlilegt væri að gera þá kröfu til meirihluta atvinnuveganefndar að hann gerði grein fyrir á hvaða grunni þessi munnlega tillaga er byggð. Þingið yrði að setja mörk og þyrfti greiningu frá yfirlögfræðingi Alþingis, og sagðist hann tilbúinn að una slíkri greiningu.

Róbert Marshall sagði nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort hugmyndir Jóns Gunnarssonar njóti stuðnings Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, „formanns Framsóknarflokks og flugvallarvina“ eins og hann orðið það.

Katrín Júlíusdóttir tók undir áskorun Róberts um að fá afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það væri verið að sniðganga hið faglega ferli og þingið þurfi að vita hvort ríkisstjórnin styðji þessa aðgerð Jóns Gunnarssonar, formanns nefndarinnar.

Helgi Hrafn Gunnarsson lýsti því yfir að honum væri „nákvæmlega sama“ hvað síðasta ríkisstjórn hefði gert, það kæmi málinu ekki við. Eitt rangt réttlætir ekki annað rangt. Hann krefst þess að forseti taki Jón Gunnarsson tali þannig að hann setji mál sem þessi á dagskrá.

Sigríður Ingibjörg þakkaði Lilju Rafney Magnúsdóttur fyrir að minna þingið á hvað það lá mikið á að koma málinu yfir í atvinnunefnd. Hún velti því upp hvort Höskuldi Þór Þórhallssyni, formanni umhverfis- og samgöngunefndar, hefði ekki hafa verið treyst til að fara með málið. „Endurspeglast vilji ríkisstjórnarinnar í broti Jóns Gunnarssonar á þingsköpum með þessum hætti? Ég vil eiginlega ekki trúa því,“ sagði Sigríður Ingibjörg.

Helgi Hjörvar sagði að aftur virtist Jón Gunnarsson og Páll Jóhann einir á ferð, því það er enginn forystumaður ríkisstjórnarinnar sem „lýsir ábyrgð á þessu athæfi á hendur sér.“ Hann kallar því aftur eftir því hvort það séu formenn stjórnarflokkanna sem standi á bak við þessi vinnubrögð. Hann benti á að hvernig sem skoðanir manna á virkjunarmálum væru, þá er ákvörðun um að virkja Urriðafoss, einn af stærstu fossum Evrópu, afgreidd eins og það sé eitthvað aukaatriði, en þarf greinilega þrjár umræður í þinginu.

Oddný G. Harðardóttir benti á að þegar þingið ræddum þessi mál í nóvember bar málið að með svipuðum hætti og það gerir núna. Málið var ekki á dagskrá og tekið fyrir undir liðnum önnur mál. Uppi varð fótur og fit í þingsal og ákveðið að málið færi ekki lengra. Hún segist hafa haldið að forseti hefði ákveðið að svona lagað myndi ekki endurtaka sig. Getur verið að forystumenn stjórnarflokkanna hafi ekki rætt við stjórn atvinnuveganefndar? Eða getur verið að þeir hvetji til slíkrar háttsemi? 

Birgitta Jónsdóttir kallar eftir yfirlýsingu nýs umhverfisráðherra um málið, og finnst ótækt að þingmenn geti tekið þingið í gíslingu út af athyglissýki.

Árni Páll tók í sama streng og spurði hvor umhverfisráðherraskiptin um áramótin hafi verið til að koma þessu máli fruntalega í gegn, því Sigurður Ingi tók einarða afstöðu gegn þessu máli þegar það kom upp í nóvember. Hann kallaði eftir að umhverfisráðherra kæmi í pontu og svaraði þeim vangaveltu. Síðar steig Valgerður Bjarnadóttir í pontu og veltu upp sömu spurningu, en sagðist í raun neita að trúa því.

Birgitta Jónsdóttir líkti framferði Jóns Gunnarssonar við það að hún myndi hætta að virða ræðutíma í þingsal.

Jón Gunnarsson steig síðastur í pontu áður en fundi var frestað yfir hádegið og bar af sér að hann og nefndin hefðu brotið lög í morgun með því að leggja málið til munnlega í lok nefndarfundar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert