Íslendingar í Noregi njóta góðs af jákvæðum staðalmyndum um land og þjóð. Þeim er tekið vel af Norðmönnum, öfugt við suma aðra hópa innflytjenda sem mæta stundum fordómum og mismunun.
Þetta er meðal þess sem Guðbjört Guðjónsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, hefur orðið áskynja í rannsókn sinni á reynslu Íslendinga sem hafa flutt til Noregs eftir hrun.
Í dag er áfram haldið með umfjöllun um flutninga Íslendinga til Noregs, Danmerkur og Svíþjóðar á árunum eftir bankahrun. Viðmælendur Morgunblaðsins sem flutt hafa til þessara þriggja landa segjast fæstir upplifa sig sem innflytjendur.