Kaþólska kirkjan hyggur á byggingu tveggja nýrra kirkna, það er á Selfossi og Reyðarfirði. Einnig þarf að stækka Maríukirkjuna í Breiðholti og Péturskirkjuna á Akureyri.
Kaþólski söfnuðurinn á Íslandi hefur þrefaldast á síðustu tíu árum. Áætlað er að kaþólskir á Íslandi séu nú um 13.000 talsins eða um 3,5% heildarmannfjöldans. Átján prestar og 31 nunna þjóna söfnuðinum, að sögn Kaþólska kirkjublaðsins.
Pétur Bürcher Reykjavíkurbiskup hefur keypt, helgað og blessað þrjár nýjar kirkjur og tvær nýjar kapellur á sjö árum. Guðshús kaþólskra eru alls 18 víða um land. Kirkjan hefur einnig keypt nokkrar fasteignir og landspildur með stuðningi velunnara í Þýskalandi og Sviss, að því er fram kemur í umfjöllun um vöxt kaþólska safnaðarins í Morgunblaðinu í dag.