Myrkvinn sá mesti í sextíu ár

Hringmyrkvinn sem sást frá Íslandi árið 2003.
Hringmyrkvinn sem sást frá Íslandi árið 2003. Rax / Ragnar Axelsson

Mesti sólmyrkvi sem sjáanlegur hefur verið á Íslandi í rúm sextíu ár verður að morgni dags 20. mars. Þá mun tunglið myrkva allt að 99% af skífu sólar á Austurlandi en aðeins minna í höfuðborginni. Stjörnuáhugamenn ætla að gefa öllum grunnskólabörnum landsins sérstök gleraugu til að berja myrkvann augum.

Myrkvinn er svonefndur deildarmyrkvi en þá skyggir tunglið á hluta sólarinnar. Að sögn Sævars Helga Bragasonar, formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, mun hann verða sjáanlegur á landinu öllu ef veður leyfir. Í Reykjavík mun tunglið myrkva um 97% skífu sólarinnar en á Austurlandi nær það 99%. Rétt fyrir austan landið verður hægt að sjá almyrkva en þá þarf fólk að fara í flugferð eða siglingu.

„Það er um það bil tuttugu mínútur fyrir tíu um morguninn sem hann nær hámarki en það getur munað tveimur til þremur mínútum  til eða frá eftir því hvort þú ert á Austurlandi eða Vestfjörðum. Sólin er tiltölulega lágt á lofti þegar myrkvinn byrjar þannig að ef fólk er með há fjöll rétt hjá sér þegar það horfir í austurátt þarf það að fara þannig að fjöllin byrgi því ekki sýn,“ segir Sævar Helgi.

Til að auka enn á sjónarspilið þá ætti að vera hægt að sjá reikistjörnuna Venus í austri, vinstra megin við sólina, þegar myrkvinn er í hámarki.

Allt þarf að leggjast á eitt fyrir myrkva

Síðast varð deildarmyrkvi á Íslandi 1. júní árið 2011 en þá skyggði tunglið mest á um 96% skífu sólarinnar. Árið 2008 varð minni deildarmyrkvi og árið 2003 varð svonefndur hringmyrkvi. Deildarmyrkvinn nú er hins vegar mesti sólmyrkvi sem sést hefur á Íslandi frá almyrkvanum sem varð 30. júní árið 1954. Næst mun almyrkvi sjást í Reykjavík eftir ellefu ár, 12. ágúst árið 2026. 

Sævar Helgi segir að allt þurfi að smella saman til að sólmyrkvi sjáist á jörðinni.

„Sólin og tunglið þurfa að vera í nákvæmlega sömu línu séð frá jörðinni. Skugginn sem tunglið varpar á jörðina er bara örmjór þannig að sólmyrkvar sjást bara frá takmörkuðu svæði á jörðinni,“ segir hann.

Að þessu sinni sést almyrkvi í Færeyjum og á Svalbarða en slóð hans liggur um 70-100 kílómetra austan við Ísland. Almyrkvar eru mögulegir á annað borð vegna tilviljunar af náttúrunnar hendi.

„Frá jörðu séð eru tunglið og sólin álíka stór á himninum. Ástæðan fyrir því er að sólin er um það bil 400 sinnum stærri en tunglið að þvermáli en á sama tíma er hún 400 sinnum lengra frá jörðinni en tunglið. Þegar tunglið er í heppilegri fjarlægð frá jörðinni virðist það smellpassa fyrir sólina svo hún virðist almyrkvuð. Þegar tunglið er hins vegar lengst frá sólinni þá passar það ekki alveg og þá getur orðið hringmyrkvi eins og varð árið 2003,“ segir Sævar Helgi en í hringmyrkva sést baugur utan um tunglið sem gengur fyrir skífu sólarinnar.

Rökkvar lítið sem ekkert 

Deildarmyrkvar, þegar tunglið hylur sólina að hluta til, eru algengasta tegund sólmyrkva og sjást þeir hvað víðast. Þrátt fyrir að tunglið nái að skyggja á 97-99% sólarinnar í deildarmyrkvanum í mars þá dugar það ekki til þess að myrkur skelli á.

„Þegar myrkvinn verður mestur þá mun rökkva örlítið. Það er spurning hvort fólk greini það almennilega.  Sólin er svo svakalega björt að jafnvel þó að það sé skyggt á hana þá dimmir afskaplega lítið. Þessi litla slikja sem eftir er dugir til að lýsa. Sólin er ansi björt,“ segir Sævar Helgi.

Leita fleiri styrktaraðila að gjöf til grunnskólanema

Einmitt af þeirri ástæðu þarf fólk að fara að öllu með gát ef það hefur hug á að fylgjast með sólmyrkvanum. Best er að nota sérstök sólmyrkvagleraugu. Þau ætla Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness að gefa grunnskólabörnum í samvinnu við Hótel Rangá.

„Við ætlum meðal annars að gefa öllum grunnskólabörnum á Íslandi sólmyrkvagleraugu. Það eru næstum því 50.000 gleraugu. Við erum búin að fá að minnsta kosti einn góðan styrktaraðila til þess að láta það verða að veruleika í Hótel Rangá. Þetta er mjög stórt verkefni og tengist jafnframt ári ljóssins,“ segir Sævar Helgi en hann leitar enn að fleiri styrktaraðilum sem vilja leggja verkefninu lið.

Sólmyrkvagleraugun verða einnig til sölu fyrir áhugasama þegar nær dregur sólmyrkvanum og mun ágóðinn af sölunni renna til þess að greiða fyrir gjöfina. Sumir hafa notað logsuðugleraugu eða jafnvel geisladiska til þess að horfa á sólmyrkva en Sævar Helgi segir að gallinn við það sé að það dugi ekki til að sía út hættulega innrauða og útfjólubláa geisla sólarinnar. Gleraugun séu hins vegar sérhönnuð til að gera það.

„Það getur verið hættulegt að fylgjast með þessu en ef fólk fer varlega og hlustar á ráðleggingar þá fær það að horfa á mjög tilkomumikla og fallega sýningu frá náttúrunni,“ segir hann.

Flugfélögin að missa af tækifæri með almyrkvaferðir

Sólmyrkvar eru tilkomumikið sjónarspil og leggja margir á sig ferðalög til að berja þá augum. Sævar Helgi segist þegar hafa heyrt af ferðamönnum sem ætli sér að gera sér ferð hingað til lands til að sjá deildarmyrkvann í mars.

„Margir ætla að reyna að komast í einhvers konar flug inn í slóð almyrkvans en af einhverjum ástæðum hefur verið erfitt að fá flugfélögin til að taka þátt í því. Þau eru að missa af tækifæri í því,“ segir hann.

Grein á Stjörnufræðivefnum um sólmyrkva

Fólk fylgist með almyrkva við Dyrhólaey í gegnum svört spjöld …
Fólk fylgist með almyrkva við Dyrhólaey í gegnum svört spjöld árið 1954 Mynd úr Ljósmyndasafni Ólafs K. Magnússonar/Morgunblaðsins. Ólafur K. Magnússon
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Babak Tafreshi/National Geographic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka