Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir Katrínu Júlíusdóttur, fv. iðnaðarráðherra, ekki skilja ferli rammaáætlunar. Engar virkjunarframkvæmdir séu fyrirhugaðar og hjólin á þeim vettvangi séu stopp. Brýnt sé að nýta orkuauðlindir til að byggja upp tækifæri á Íslandi.
Þau Katrín voru gestir í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni nú í morgun og ræddu þau um tillögu Jóns um að skoða það að setja fjóra virkjunarkosti í nýtingarflokk sem hann lagði fram í atvinnuveganefnd Alþingis í vikunni. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þá tillögu harðlega sem hún segir ganga þvert á ferli sem kveðið er á um í rammaáætlun um nýtingu orkukosta.
Jón nefndi að ekki væri hægt að selja orku til atvinnuuppbyggingar vegna þess að engar virkjunarframkvæmdir væru fyrirhugaðar. Slæmt væri fyrir stjórnvöld að vera í þeirri stöðu að þurfa að koma hjólunum aftur af stað.
Katrín sagði gagnrýnina tilkomna vegna þess að fylgja þyrfti reglum þegar stór mál á borð við þetta væru til umfjöllunar. Rammaáætlun hefði verið samþykkt til að koma á faglegu ferli á meðferð virkjunarkosta svo einstakir stjórnmálamenn væru ekki að sýsla með hvað væri virkjað og hvað ekki. Jón væri nú að taka pólitíska ákvörðun og taka fram fyrir hendurnar á faglegri verkefnisstjórn rammaáætlunar. Réttara væri að Jón legði fram frumvarp um breytingar á lögunum en að sniðganga ferlið. Efaðist hún um að Jón hefði stuðning þingsins fyrir tillögu sinni.
Jón þvertók fyrir það og sagði málið algerlega útrætt og hann hefði lagt tillöguna fram með fullum vilja og samþykki þingflokks Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Sagðist hann efast um að Katrín, sem lagði fram frumvarpið um rammaáætlun, skildi ferlið sjálf.
Aðeins væri verið að leggja fram tillögu um að hagsmunaaðilar fengju að gefa umsögn um hvort færa ætti fjóra virkjunarkosti í nýtingarflokk. Hægt hefði verið að afgreiða breytingartillögu um að það skyldi gert en að rétt hefði verið talið að setja tillöguna í umsagnarferli.
Fyrri ríkisstjórn, sem Katrín sat í, hefði sjálf tekið pólitíska ákvörðun um að færa sex virkjunarkosti úr nýtingarflokki í biðflokk þrátt fyrir að engar nýjar upplýsingar hefðu komið fram í umsagnarferli um þá.
Katrín sagðist þekkja ferlið ágætlega og eina pólitíska ákvörðunin sem fyrri ríkisstjórn hefði tekið hefði verið að færa sex kosti í biðflokk til að verkefnisstjórnin gæti farið betur yfir þá kosti. Benti hún á að 30 virkjunarkostir væru í nýtingarflokki og þegar væru framkvæmdir í gangi varðandi atvinnuuppbygginu á Bakka. Ekkert væri svo aðkallandi nú að menn gætu ekki leyft ferli rammaáætlunar að hafa sinn gang.