„Á flótta undan eigin gjörðum“

Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og lögmaðurinn Helgi Sigurðsson í Hæstarétti …
Sigurður Einarsson, Magnús Guðmundsson og lögmaðurinn Helgi Sigurðsson í Hæstarétti í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Verulegir annmarkar voru á rannsókn embættis sérstaks saksóknara í Al Thani-málinu og sömu sögu er að segja um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll í desember 2013. Þetta kom fram í máli verjenda við málflutning í Hæstarétti í dag. Saksóknari vill hins vegar sjá þyngri dóma falla.

Munnlegur málflutningur hófst í Hæstarétti klukkan 8 í morgun, en sakborningar eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem var á meðal stærstu hluthafa bankans. Þeir voru allir viðstaddir málflutninginn í dag, en þeir hlutu allir þunga dóma í héraðsdómi.

Ákært var fyr­ir lán­veit­ing­ar tengd­ar viðskipt­um sj­eiks­ins Al Thani við Kaupþing í sept­em­ber 2008 og svo fyr­ir að láta rang­lega líta út að sj­eik­inn Al Thani hafi verið í viðskipt­un­um við Kaupþing.

Vill þyngri dóma

Voru þeir sak­felld­ir fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um og fyr­ir markaðsmis­notk­un, með þætti sín­um í sölu á 5,01% hlut til Mohameds Al Than­is, sj­eiks frá Kat­ar, rétt fyr­ir hrun. Eft­ir hrun var upp­lýst að Kaupþing hafði lánað Al Thani fyr­ir kaup­un­um. Dómur héraðsdóms féll í desember 2013 og þar hlaut var Hreiðar Már dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður hlaut fimm ár, Magnús þrjú og hálft ár og Ólafur var dæmdur í þriggja ára fangelsi.

Björn Þorvaldsson saksóknari hóf málflutning í morgun. Hann efast ekki um sekt fjórmenninganna og vill að Hæstiréttur þyngi fangelsisdómana, en við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi krafðist Björn þess að þeir Hreiðar Már og Sigurður yrðu dæmdir í sex ára fangelsi og þeir Magnús og Ólafur í fjögurra ára fangelsi. 

Björn sagði að fjórmenningarnir hefðu ekki sagt allan sannleikann þegar þeir tilkynntu um kaup sjeiksins, fjárfestar og hluthafar hefðu verið blekktir og að viðskiptin hefðu á valdið gríðarlegu tjóni. Þetta hefði verið ótryggt lán sem átti að nota til áhættusamra viðskipta.

Gættu ekki hlutleysis

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, tók fyrstur verjanda til máls í dag. Hann krafðist þess að málinu yrði vísað frá - enda væri það í raun óhjákvæmilegt - , dómurinn ómerktur eða skjólstæðingur sinn sýknaður. Hann fór um víðan völl í ræðu sinni, ræddi um annmarka á rannsókn sérstaks saksóknara en hann sagði m.a. að embættið hefði virt hlutlægnisregluna að vettugi og verið búni að móta sér afstöðu til sakborninga á rannsóknarstigi. Það hafi ekki verið hlutverk þeirra að taka afstöðu til sakarefnisins heldur að gæta hlutleysis.

Hann kom inn á símahlustun embættisins og gagnrýndi það að embættið hefði hlustað á trúnaðarsamtöl sakborninga við verjendur. Sá trúnaður hafi ekki verið virtur. Þá gagnrýndi hann takmarkað aðgengi sakborninga að málsgögnum. 

Einnig fjallaði Hörður um það hvaða vitni héraðsdómur hefði metið trúverðug og ótrúverðug. Hann sagði að vitnir sem hefðu gefið skýrslu sem voru Hreiðari Má í hag hefðu verið metin ótrúverðug. Hins vegar hefði skýrsla Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar, fyrrverandi viðskiptastjóri hjá Kaupþingi, verið metinn trúverðugur en Hreiðar Már en sakfelling Hreiðars Más byggir á framburði Halldórs. Halldór var upphaflega með stöðu sakbornings en réttarstaða hans breyttist síðar. Hann var sagður bera af sér sök í málinu og varpa á aðra. Hann hefði verið á „flótta undan eigin gjörðum“.

Viðskiptin hafi verið raunveruleg

Hörður sagði að miklir annmarkar væru á dómi héraðsdóms, sem hann telur að hefði ekki leyst úr mörgum málsástæðum. Víða vanti rökstuðning og úrlausnin því ekki í samræmi við lög. Þá væri sönnunarmat dómstólsins rangt, t.d. hvað varðar mat á trúverðugleika vitna.

Hörður dró ennfremur óhlutdrægni meðdóm­ara í héraðsdómi sem hefði átt per­sónu­legra hagsmuna að gæta, en hann hefði orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum í gegnum félög sem hann átti í vegna falls bankanna í hruninu. 

Hörður sagði að viðskiptin við sjeikinn hefðu ekki verið sýndarviðskipti heldur hefðu þetta verið raunveruleg viðskipti þar sem hagsmunir Kaupþings hefðu verið hafðir að leiðarljósi. Þá væri það rangt hjá ákæruvaldinu að viðskiptin hefðu valdið tjóni. Hið gagnstæða væri rétt, því viðskiptin hefðu bætt stöðu Kaupþings. Það væri því rangt að halda því fram að Hreiðar Már hefði valdið bankanum fjártjóni eða fjártjónsáhættu. 

Ólögmæt handtökuskipun

Síðdegis tók Ólafur Eiríksson, verjandi Sigurðar Einarssonar, til máls. Hann sagði að aðkoma Sigurðar að viðskiptunum hefði verið verulega takmörkuð. Engin sönnunargögn væru fyrir hendi sem gætu fellt á hann sök, en hann gerði þá aðalkröfu að málinu yrði vísað frá dómi.

Hann tók undir málflutning Harðar þar sem aðgengi að gögnum og símahlustun á trúnaðarsímtöl voru gagnrýnd, sem og að rannsakendur hefðu ekki gætt hlutleysis. 

Þá vék Ólafur að því þegar Interpol lét lýsa eftir Sigurði eftir að héraðsdómur hafði gefið út handtökuskipun á hendur honum í maí 2010. Ólafur sagði að þarna hefðu menn ekki vandað til verka, m.a. hefði rökstuðningurinn verið byggður á upplýsingum um lýsingar á háttsemi Hreiðars Más. Það væri án efa einsdæmi að slíkt væri gert. 

Hann sagði að þetta hefði verið ólögmæt handtökuskipun, en embætti sérstaks saksóknara hefði krafist þess að láta lýsa eftir Sigurði sem sakamanni. Það mætti hins vegar ekki, því Sigurður hafði á þessum tíma hvorki verið ákærður né verið höfðað sakamál á hendur honum. Þarna hefði saksóknari ekki farið rétt með sínar heimildir, því þarna hefði einfaldlega átt að taka skýrslu af Sigurði. Hins vegar hefði verið lýst eftir honum sem flóttamanni. Gefnar hefðu verið upp rangar upplýsingar til að ná fram ólögmætri handtöku.

Málflutningur heldur áfram á morgun

Þá sagði Ólafur að það væri sérstakt að hvorki ákæruvaldið né héraðsdómur hefðu beitt sér fyrir því að lykilvitni, þeir Sjeik Mohamed bin Khalifa Al Thani og Sjeik Sultan Al Thani, hefðu verið kallaðir fyrir dóminn. Þeir hefðu hins vegar óskað eftir því að gefa skýrslu níu mánuðum fyrir aðalmeðferð málsins í héraði. 

Ólafur sagði, að Sigurður hefði ekki komið að samningagerð við Al Thani, hvorki rætt né hitt hann á því tímabili sem samningarnir voru gerðir. Hann hefði ekki komið að ákvörðunartöku og hefði ekki haft almenna vitneskju um málið. Enda hafi það ekki verið hans hlutverk. Hann hefði verið stjórnarformaður í stærsta hlutafélagi Íslands og ekki borið hlutlæga ábyrgð á gjörðum starfsmanna og borið ábyrgð á þeim. Hann hefði talið að viðskipti hefðu verið í samræmi við reglur.

Málflutningi lauk um kl. 16 í dag. Seinni dagur málflutnings Al Thani-málsins í Hæstarétti heldur áfram klukkan 8 í fyrramálið. Þá munu verjendur Ólafs Ólafssonar og Magnúsar Guðmundssonar taka til máls, að því búnu verður málið dómtekið.

Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson í Hæstarétti í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert