Snjókoman á Boston-svæðinu er svipuð því sem gerist þegar veður telst slæmt á Íslandi, segir Anna Björnsdóttir, læknir í Massachusetts í Bandaríkjunum. Hún var send heim af vakt í gær vegna veðursins en eiginmaður hennar er enn við vinnu á sjúkrahúsinu vegna þess. Hann átti að ljúka sólahringsvakt í morgun.
Þau Anna og Martin Ingi Sigurðsson, eiginmaður hennar, eru bæði læknar í sérnámi. Hún starfar á U-Mass-sjúkrahúsinu í Worchester en hann á Brigham and Women's-sjúkrahúsinu í Boston. Þau búa í bænum Natick sem er í um 40 mínútna akstursfjarlægð frá Boston.
„Eins og þetta er núna er þetta tvímælalaust á borð við það sem gerist þegar það er slæmt á Íslandi. Þetta er nú engin smásnjókoma,“ segir Anna í samtali við mbl.is.
Sjálf átti hún að vera á kvöldvakt á sjúkrahúsinu frá kl. 16 til 22 í gærkvöldi. Hún var hins vegar send heim á milli 17 og 18 vegna veðursins. Uppi var fótur og fit á sjúkrahúsinu enda viðbúið að starfsfólk þyrfti að gista á sjúkrahúsinu vegna ófærðarinnar og því var aðeins hafður lágmarksstarfsmannafjöldi svo að hægt væri að finna rúm fyrir alla, bæði starfsfólk og sjúklinga. Öllum valaðgerðum var einnig frestað.
„Þeir sögðu í gær að þetta ætti að lægja um þrjú leytið. Ég veit ekki hvað það tekur þá langan tíma að hreinsa göturnar. Ég á sem sagt að vera mætt í vinnu kl. 16 [að staðartíma] en ég verð bara að sjá til hvort ég komist,“ segir hún.
Martin átti að ljúka 24 klukkustunda langri vakt í morgun en hann bauðst til þess að halda áfram út af aðstæðunum.
„Hann átti reyndar flugfar til Flórída í viðtal fyrir rannsóknarstöðu en fluginu hans var aflýst í gær. Því var frestað og hann bauðst til að vera áfram ef starfsfólk kæmist ekki inn í morgunsárið. Hann er núna á kvennadeild. Konurnar hætta náttúrulega ekki að eignast börn þannig að það var alveg gert ráð fyrir að það yrði alveg jafnmikið að gera og venjulega á vaktinni hjá honum,“ segir Anna.
Þess fyrir utan segir Anna að Martin væri í raun fastur inni í Boston. Akstursbann sé enn í gildi þó að hann megi keyra með því að framvísa skilríkjum sínum sem læknir.
„Hins vegar er veðrið þannig að ekki einu sinni Íslendingur myndi fara út og keyra heim til sín ef hann gæti komist hjá því,“ segir Anna.
Venjulega tæki bílferðin 45 mínútur heim til Natick en við þessar aðstæður gæti hún tekið 2-3 tíma.
„Það er svo ofboðslega mikil umferð að göturnar þola ekkert svona snjó. Umferðin er ekkert á kalíberi við það sem er á Íslandi á venjulegum degi. Þannig að bara ef það er smá snjór þá fer allt úr skorðum og bílarnir verða stopp á götunum,“ segir hún.
Fyrri frétt mbl.is: „Snjókoman kemur alltaf á óvart“