Tólf prósent stúlkna í 9. og 10. bekk grunnskóla á landsbyggðinni töldu í fyrra að framtíðin væri vonlaus og hefur hlutfallið farið hækkandi á undanförnum árum. Sömu sögu má sjá hjá stúlkum í sömu bekkjum grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu en í fyrra töldu tíu prósent þeirra að framtíðin væri án vonar.
Þetta kemur fram í skýrslunni Ungt fólk 2014 en í henni eru niðurstöður rannsóknar meðal nemenda í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla á Íslandi árið 2014 með samanburði við árin 2000, 2006, 2009 og 2012. Gagnasöfnun fór fram með spurningalistakönnun í febrúarmánuði 2014.
Þegar aðeins er litið til svara við spurningu um það hvort viðkomandi hafi síðustu 7 daga upplifað líðan sína þannig að framtíðin sé vonlaus kemur ýmislegt athyglisvert í ljós.
Allt önnur saga blasir við þegar hlutfall drengja er skoðað og virðist sem þeir líti framtíðina mun bjartari augum en stúlkurnar, sér í lagi á landsbyggðinni.
Þegar skoðað er hlutfall stúlkna sem orðið hafa niðurdregnar eða einmana síðustu 7 daga sést að hlutfall þeirra hefur jafnframt hækkað, bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni, og er hlutfallið mun hærra en hjá drengjunum.
Nemendur voru einnig, meðal annars, spurðir út í það hvort þeir hefðu orðið fyrir einelti eða ofbeldi gegnum netmiðla. Niðurstöður sýna að tæp 10% nemenda í 8., 9. og 10. bekk á höfuðborgarsvæðinu segjast hafa fengið andstyggileg eða særandi skilaboð frá einstaklingi eða hópi á netinu 3 sinnum eða oftar og tæp 11% nemenda á landsbyggðinni.
Þegar kom að því svara hvort þeir hefðu sent andstyggileg eða særandi skilaboð til einstaklings eða hóps á netinu sögðust 3,1% nemenda á höfuðborgarsvæðinu hafa gert það þrisvar sinnum eða oftar og 3,5% nemenda á landsbyggðinni. Töluvert fleiri viðurkenndu að hafa sent slík skilaboð einu sinni eða tvisvar, 10,6% nemenda á höfuðborgarsvæðinu og 11,7% nemenda á landsbyggðinni.
Þetta hlutfall lækkaði mikið þegar nemendur voru spurðir að því hvort þeir hefðu sent andstyggileg eða særandi skilaboð í gegnum farsíma sinna, þ.e. þá ekki gegnum netið.
Þá sögðust 8% nemenda hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi síðastliðna 12 mánuði og 7% nemenda sögðust hafa beitt líkamlegu ofbeldi síðastliðna 12 mánuði.